Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48982
Lokaverkefni þetta fjallar um þarfir aðstandenda barna sem glíma við sjálfsskaðandi hegðun. Markmiðið með rannsókninni er að veita innsýn í reynslu aðstandenda í þessari stöðu og leita svara við því hvers þeir þarfnast til þess að takast á við vandann, hvernig þörfunum sé mætt hérlendis og ekki síst hvernig hægt sé að styðja við þá með sem bestu móti. Til þess að svara þessum spurningum rýndi höfundur í fræðilegar heimildir og fyrirliggjandi gögn er tengja má við aðstandendur barna í þessari stöðu og tók djúpviðtöl við fimm aðstandendur barna sem hafa glímt við sjálfsskaða.
Í verkefninu er fjallað um hugtök og kenningar er tengja má við efni rannsóknarinnar, fræðilegar heimildir um aðstandendur barna sem skaða sig, þau víðtæku áhrif sem hegðunin getur haft á þá, mishjálpleg viðbrögð þeirra við hegðuninni og hvers þeir þarfnast til þess að takast á við hana. Því næst er litið út fyrir landsteinana í leit að fyrirmyndum um það hvernig hægt væri að koma betur til móts við þennan hóp og gerð grein fyrir þeim lagaramma, stefnuskjölum og umgjörð þjónustu sem ná utan um málaflokkinn hér á landi.
Rauðir þræðir í frásögnum viðmælenda mynduðu fimm þemu; (1) Sjálfsskaði barnsins, (2) Áhrif á aðstandendur, (3) Mishjálpleg viðbrögð, (4) Reynsla aðstandenda af stuðningi og (5) Ákjósanlegur stuðningur. Reynsla aðstandenda af stuðningi var langsamlega stærsta þemað og var því skipt í sjö undirþemu; (1) Upplýsingar og bjargráð, (2) Aðgengi að stuðningi, (3) Lítið gert úr vandanum, (4) Gripin seint og hendinni sleppt fljótt, (5) Stefna og utanumhald, (6) Brestir í kerfinu og (7) Aðstandendur fyrir utan.
Þegar öll þessi atriði eru fléttuð saman þá eru það niðurstöður rannsóknarinnar að það sem aðstandendur barna sem skaða sig þurfi fyrst og fremst á að halda séu upplýsingar og bjargráð, snemmtækur og meira afgerandi stuðningur fyrir barnið og ekki síst stuðningur fyrir þá sjálfa. Þá bera niðurstöðurnar þess merki að ef þörfum þeirra er mætt séu aðstandendur betur í stakk búnir til að sinna verndandi hlutverki sínu auk þess sem þeir eru síður líklegir til að brotna undan álaginu sem því fylgir.
Þegar kemur að því hvernig þörfum aðstandenda er mætt hérlendis þá virðist sem ekki fari saman hljóð og mynd en rannsóknin bendir til þess að gap sé á milli þess hvernig þörfum þessa hóps á að vera mætt samkvæmt umgjörð laga og þjónustu hér á landi og þess hvernig viðmælendur upplifðu þeim mætt í raun. Börn sem skaða sig og aðstandendur þeirra eigi það á hættu að lenda á gráu svæði þar sem þeir lenda á milli úrræða og fá þar af leiðandi ekki viðeigandi þjónustu.
Það virðist því vera rými til úrbóta í málaflokknum þegar kemur að því að mæta þörfum aðstandenda barna sem skaða sig og í lok verkefnisins leggur höfundur til nokkur atriði sem rannsóknin gefur vísbendingar um að gera megi betur til þess að mæta þeim.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð.pdf | 1,01 MB | Lokaður til...21.02.2025 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing fyrir Skemmuna.pdf | 73,56 kB | Lokaður | Yfirlýsing |