Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/49125
Hitaveitur sem byggja á jarðvarma á Íslandi farga nær alltaf vatni eftir að það er nýtt til sjávar með einum eða öðrum hætti. Oft er það í gegnum fráveitukerfi sem þýðir óþarfa aukaálag á kerfi fráveitunnar. Hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu samanstendur af opnu einföldu hitaveitukerfi þar sem bakvatni hitaveitu er fargað í fráveitukerfið og hálfopnu tvöföldu hitaveitukerfi þar sem hluti af bakvatninu er nýtt til uppblöndunar á framrás og umfram bakvatni er fargað. Markmið þessa verkefnis var að skilja áhrif og magn bakvatns í fráveitukerfinu á höfuðborgarsvæðinu og bera saman kostnað á losun bakvatns í annars vegar bakvatnskerfi hitaveitu og hins vegar fráveitukerfið. Til að skilja magn bakvatns í fráveitukerfinu á höfuðborgarsvæðinu var kortlagt hvernig bakvatn er losað hjá hverjum notenda með upplýsingum um núverandi hita- og fráveitukerfi, auk lagnateikninga af húsnæðum sem eru aðgengileg á landupplýsingakerfi Orkuveitunnar og sveitarfélaganna. Til að skilja áhrif bakvatns á fráveitukerfið og meta kostnað við losun bakvatns voru þrjú hönnunartilfelli sett upp fyrir Norðlingaholtið, þar sem bakvatn var annars vegar veitt í tvöfalt hitaveitukerfi og hins vegar fráveitukerfið, skólp og ofanvatn. Niðurstaðan sýnir að allt að helmingur af bakvatni á höfuðborgarsvæðinu er veitt í skólp. Losun bakvatns í skólpkerfið er oft í hverfum þar sem veitukerfin eru komin á aldur og því ýmis tækifæri til að betrumbæta kerfin þegar farið verður í endurnýjunarverkefni. Losun á bakvatni í ofanvatnskerfið felur í sér minnsta kostnaðinn, samanborið við losun í skólpkerfið eða lagningu sérstaks bakvatnskerfi hitaveitu. Áhrif vegna losunar í skólpkerfi kallar á aukinn rekstrarkostnað en lagning bakvatnskerfi hitaveitu krefst mikillar stofnfjárfestingar, samanborið við losun í ofanvatnskerfi. Rekstrarkostnaður skólpkerfisins getur hins vegar mögulega margfaldast með tilkomu nýrrar skólphreinsistöðvar sem uppfylla auknar kröfur um hreinsun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerð_Ragnheiður Ingólfsdóttir.pdf | 2,01 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_skemman.pdf | 243,8 kB | Lokaður | Yfirlýsing |