Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/49238
Þessi ritgerð fjallar um snertifleti Carls Gustavs Jung og Claudes Lévi-Strauss, einkum þegar kemur að kenningum þeirra um dulvitundina, mýtur og tvenndarpör. Margir fræðimenn hafa velt fyrir sér mögulega áhrifum Jungs á verk Lévi-Strauss vegna ákveðinna líkinda á milli kenninga þeirra, en Lévi-Strauss neitar þessum áhrifum. Í fyrsta kafla er samband Freuds, Jungs og Lévi-Strauss kynnt til leiks. Svo eru mannfræðiskrif Jungs, sem voru að mestu leyti byggð á kenningum Lévy-Bruhls, tekin fyrir. Í þessum skrifum veltir Jungs fyrir sér hugrænum ferlum „frumstæða“ mannsins. Hann telur að „nútíma“ maðurinn geti lært mikið af þeim „frumstæða.“ Svo er mannfræðirit Freuds, Tótem og tabú, rætt og hvernig mannfræðingar gagnrýndu verkið. Þeir töldu það mannfræðilega gallað og bentu á að kenningar hans samræmist ekki viðteknum vísindakenningum. Svo snýst umræðan að túlkun Freuds, Jungs og Lévi-Strauss á tótemisma. Á meðan Freud og Jung leggja mikla áherslu á tótemdýrið lítur Lévi-Strauss svo á að tótemismi sé flokkunarkerfi. Að lokum er rætt hvernig gagnrýni Lévi-Strauss á Jung sé byggð á misskilningi þar sem Lévi-Strauss gagnrýnir oft á tíðum kenningar sem Jung sjálfur hafði sagt skilið við. Í öðrum kafla eru kenningar Freuds, Jungs og Lévi-Strauss um dulvitundina útskýrðar. Lévi-Strauss og Jung byggðu sínar kenningar um dulvitundina á kenningu Freuds. Það hefur verið sagt að dulvitund Freuds eigi ekki samleið með dulvitund Lévi-Strauss, en það er byggt á algengum misskilningi á dulvitund Freuds. Við fyrstu sýn virðist hin sameiginlega dulvitund Jungs ekki eiga samleið með dulvitund Lévi-Strauss, en Jung átti eftir að þróa kenningu sína áfram þangað til að hún varð aðeins híbýli ákveðinna formgerðarreglna og þar af leiðandi nauðalík dulvitund Lévi-Strauss. Þriðju kafli inniheldur svo samanburð á mýtugreiningu Lévi-Strauss og Jungs. Þeir telja báðir að sameining andstæðna sem megin virkni mýtna. Fjallað er um formgerðarmannfræði Lévi-Strauss og hvernig hann notar aðferðir hennar til þess að greina mýtuna um Ödipus. Að lokum er bent á megin muninn á Jung og Lévi-Strauss. Þeir eru að vinna út frá ólíkum sjónarhornum. Jung er að vinna út frá sálfræðilegu sjónarhorni á meðan Lévi-Strauss er að vinna út frá mannfræðilegu.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Formgerð erkitýpunnar - MA ritgerð - Arnar B. Einarsson.pdf | 1,25 MB | Locked Until...2025/06/14 | Complete Text | ||
Yfirlýsing Skemman - Arnar B. Einarsson.jpg | 134,92 kB | Locked | Declaration of Access | JPG |