Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4926
Í ritgerð þessari er gerð grein fyrir hugtakinu aðgangur að réttinum (e. access to justice). Gerð er grein fyrir aðgangi að dómstólum en áhersla lögð á það hvernig nálgast megi viðfangsefnið með víðtækari hætti í ljósi aðferðarfræði ítalska lagaprófessorsins Mauro Cappelletti, sem sett var fram á áttunda áratug síðustu aldar. Ljóst er að viðfangsefnið um aðgang að réttinum er víðtækt í eðli sínu. Í ritgerðinni er efnið afmarkað með þeim hætti að gerð er grein fyrir helstu álitamálum um aðgang að dómstólum eins og þau koma fyrir í gildandi rétti, en þó með þeirri áherslu, að gerð er grein fyrir annmörkum þeim sem fylgja núverandi framkvæmd og breytingum til bóta á þeim í ljósi hugmyndafræði um bættan aðgang að réttinum. Verða tvö réttarsvið sérstaklega nefnd í þessu sambandi, en á sviði neytenda- og umhverfisréttar hefur átt sér stað töluverð umræða hvað varðar aðgang að réttinum í víðtækri merkingu og réttarstaða einstaklinga sætt breytingum til bóta að þessu leyti með nýrri löggjöf er tekur til viðfangsefnisins. Að lokum er sett fram ágrip af íslenskum rétti með samantekt yfir aðgang að réttinum eins og hann kemur fyrir í gildandi rétti og fræðilegri umfjöllun.
Í upphafi er gerð grein fyrir hugtakinu aðgangur að réttinum en segja má að aðgangur að réttinum í hefðbundnum skilningi standi fyrir grundvallarrétt manna til aðgangs að dómstólum. Í kjölfar þess er gerð fyrir hugmyndafræði um bættan aðgang að réttinum. Í framhaldi af þessu er gerð grein fyrir stöðu hugmyndafræði um aðgang að réttinum í samtímanum, en aukin fræðileg umræða hefur farið fram á ýmsum réttarsviðum lögfræði á undanförnum árum af ýmsum ástæðum.
Í kafla 3 er áhersla lögð á EB-rétt og EES-rétt. Gerð er grein fyrir viðurkenningu grundvallarréttinda innan EB-réttar sem og dómstólavernd. Því næst er gerð grein fyrir grundvallarreglunni um aðgang að dómstólum og helstu álitamálum hvað réttindin varðar að gildandi rétti fyrir EB-dómstólum. Ljóst er að um viðamikið álitamál er að ræða að EB-rétti. Dómaframkvæmd EB-dómstólsins er afgerandi og umræða um viðfangsefnið meðal fræðimanna lifandi og gagnvirk og býsna hart tekist á um grunndvallarforsendur. Af þessum ástæðum er ítarlega gerð grein fyrir dómaframkvæmd EB-dómstólsins sem og forsendum fræðimanna. Að lokum er gerð grein fyrir réttarstöðunni að EES-rétti en ljóst er að EFTA-dómstóllinn fylgir hér dómafordæmum EB-dómstólsins. Framkvæmdin vekur þó upp áleitnar spurningar um hvort forsendur hefðu verið fyrir EFTA-dómstólinn að fara aðrar leiðir.
Í kafla 4 er gerð grein fyrir tilteknum réttarsviðum EB-réttar þar sem umræða um aðgang að réttinum fer út fyrir hina hefðbundnu skilgreiningu í skilningi aðgangs að dómstólum. Á hinum fyrrgreindu tveimur réttarsviðum, umhverfisrétti og neytendarétti, hefur hugmyndafræði um bættan aðgang að réttinum leitt til markvissrar endurmótunar sem miða að því að rýmka aðildarrétt einstaklinga og lögaðila, fjölga réttarúrræðum við lausn deilumála sem og auðvelda aðgengi og draga úr kostnaði sem hefðbundin málaferli fyrir dómstólum hafa óhjákvæmilega í för með sér.
Í kafla 5 er sett fram ágrip af íslenskum rétti með samantekt um aðgang að réttinum eins og hann kemur fyrir í gildandi rétti og fræðilegri umfjöllun, fyrst út frá grundvallarrétti til aðgangs að dómstólum og í kjölfarið hvaða réttarúrræði gætu stuðlað að bættum aðgangi að réttinum sem og þeim hindrunum sem standa honum í vegi hér á landi. Leitast er við að draga ályktanir af stöðu aðgangs að réttinum að gildandi rétti, einkum í samhengi við fyrri umfjöllun í EB-rétti sem og hugmyndafræðinnar um bættan aðgang að réttinum.
Að endingu er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum og ályktunum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
RitgerðMO.pdf | 956.32 kB | Lokaður | Meginmál | ||
Forsíða-MO.pdf | 60.11 kB | Lokaður | Forsíða |