Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/49343
Tjáningarfrelsi er ein af grunnstoðum hvers lýðræðisþjóðfélags, og er það verndað í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994. Í því eru ekki einungis fólgin mikilvæg og einstaklingsbundin réttindi, heldur einnig miklir þjóðfélagslegir hagsmunir sem tengjast náið frjálsri umræðu og opinberum skoðanaskiptum í samfélaginu. Tjáningarfrelsi er þó mjög vandmeðfarið þar sem beiting þess án takmarkana getur skert réttindi annarra. Af þeim sökum er mikilvægt að setja því ákveðnar skorður, bæði með tilliti til hagsmuna einstaklinga og samfélagsins í heild. Í 3. mgr. 73. gr. stjskr. eru talin upp tilvik sem geta réttlætt skerðingu tjáningarfrelsis en tjáningarfrelsi má einungis takmarka með lögum. Takmörkun tjáningarfrelsis verður að stefna að lögmætu markmiði og verður að vera nauðsynleg og samrýmast lýðræðishefðum. Þátttaka opinberra starfsmanna í opinberri umræðu skiptir ekki einungis máli fyrir þá sem einstaklinga, heldur einnig fyrir samfélagið í heild. Nýleg fræðaskrif hér á landi hafa vakið athygli á því hversu skaðlegt það væri fyrir opinbera umræðu ef opinberir starfsmenn gætu ekki tekið þátt í henni, þá sérstaklega í ljósi þess hversu stór hluti samfélagsins þeir eru og að teknu tilliti til þekkingar þeirra og reynslu. Tjáningarfrelsi kennara er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi, en líta má svo á að gagnrýnin hugsun, skoðanaskipti og frjáls umræða séu hornsteinar menntunar. Kennurum ber að miðla þekkingu sinni til nemenda og efla gagnrýna hugsun þeirra, en þó er mikilvægt að tjáningarfrelsi þeirra, líkt og annarra opinberra starfsmanna, séu settar ákveðnar skorður, meðal annars í þeim tilvikum þar sem tjáning þeirra telst vera skaðleg fyrir starfsgreinina eða stofnunina sem þeir starfa hjá. En eru þær skorður ólíkar eftir því á hvaða skólastigi kennari starfar, þ.e. hvort hann starfar innan grunnskóla, framhaldsskóla eða háskóla?
Í þessari ritgerð verður í upphafi fjallað almennt um tjáningarfrelsi og lögfestingu þess. Farið verður yfir stjórnarskrárlegt gildi þess og samspil við mannréttindasáttmála Evrópu, litið til réttinda og skyldna opinberra starfsmanna til tjáningar samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og fjallað um lögfestingu tjáningarfrelsisákvæðis í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, sem breytt var með lögum nr. 71/2019. Einnig verður litið til tengsla tjáningarfrelsis við önnur mannréttindi. Í þriðja kafla verður fjallað almennt um takmarkanir á tjáningarfrelsi, þá sérstaklega hjá opinberum starfsmönnum, og skilyrði þeirra takmarkana. Í fjórða kafla verður litið til tjáningar opinberra starfsmanna, bæði innan starfs þeirra og utan, en ólíkar reglur gilda eftir því á hvaða vettvangi viðkomandi tjáir sig og fyrir hvers hönd. Í fimmta kafla verður vikið að tjáningarfrelsi kennara og farið yfir lagalegan ramma tjáningarfrelsis þeirra. Vikið verður sérstaklega að hverju skólastigi fyrir sig, þ.e. tjáningarfrelsi grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólakennara, og loks skoðað hvort einhver munur sé á tjáningarfrelsi kennara eftir skólastigum. Að lokum verður komist að niðurstöðu um hvort, og ef svo er hvaða, munur sé á tjáningarfrelsi kennara eftir skólastigum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Takmarkanir á tjáningarfrelsi kennara.pdf | 426,08 kB | Lokaður til...14.06.2025 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing.pdf | 290,16 kB | Lokaður | Yfirlýsing |