Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/49358
Ofbeldi í parsamböndum er ein algengasta gerð ofbeldis sem konur verða fyrir og getur ofbeldið verið líkamlegt, kynferðislegt eða tilfinningalegt ofbeldi. Ofbeldið getur átt sér stað meðal allra þjóðfélagshópa óháð menningu, trúarbragða eða efnahagslegra aðstæðna. Markmið þessarar heimildaritgerðar er að varpa ljósi á helstu birtingarmyndir, greina áhættuþætti gerenda og þolenda og fjalla um afleiðingar tilfinningalegs ofbeldis gagnvart konum í gagnkynhneigðum parsamböndum. Að lokum er farið yfir hvaða úrræði standa þeim til boða á Íslandi. Fram kom að birtingarmyndir tilfinningalegs ofbeldis geta verið margsvíslegar og erfitt getur verið að sjá og greina ofbeldið þar sem áverkar eru ekki sjáanlegir. Dæmi um slíkt ofbeldi er stöðug niðurlæging, stjórnsemi og félagsleg einangrun. Áhættuþættir geta verið ungur aldur gerenda, geðræn vandamál og áfengis- og vímuefnaneysla. Einnig er fylgni á milli þess að hafa verið beittur ofbeldi í æsku eða orðið vitni af slíku og að beita maka ofbeldi síðar meir. Ungar konur eru líklegastar til að verða þolendur og getur lág menntun, efnahagsleg staða, lágt sjálfsálit og fátækt verið áhættuþættir ofbeldis fyrir þolendur. Ofbeldið getur haft langvarandi andlegar afleiðingar fyrir þolendur þess en þeir geta meðal annars glímt við kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun. Líkamlegar afleiðingar geta verið magaverkir, svefntruflanir og höfuðverkir. Tilfinningalegt ofbeldi getur brotið niður sjálfsmynd kvenna sem getur valdið skömm og ótta sem getur komið í veg fyrir að þær leiti sér hjálpar. Á Íslandi eru úrræði fyrir þolendur meðal annars Kvennaathvarfið, Bjarkarhlíð og Aflið sem veitir þolendum öruggt skjól, ráðgjöf og stuðning.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| srv10_SagaRunVilhjalmsdottir_Lokaritgerð.pdf | 499,3 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| yfirlýsing-skemman PDF.pdf | 5,89 MB | Lokaður | Yfirlýsing |