Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/49363
Í lýðræðisríkjum er megináhersla lögð á að dómstólar séu sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir öðrum valdhöfum ríkisvaldsins. Sjálfstæði dómstóla er ein af grundvallarforsendum réttarríkisins og er sjálfstæði dómstóla mikilvægt þar sem borgarar þurfa að bera traust til dómstólakerfisins.
Í ritgerð þessari verður farið ítarlega yfir hvernig sjálfstæði dómstóla á Íslandi er tryggt í núverandi löggjöf, bæði í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (hér eftir skammstöfuð stjskr.) og lögum um dómstóla nr. 50/2016 (hér eftir skammstöfuð dsl.).
Stjórnskipun Íslands byggir á þrígreiningu ríkisvaldsins skv. 2. gr. stjskr., þar sem valdinu er skipt í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Dómsvaldið gegnir þar mikilvægu hlutverki sem einn af þremur handhöfum ríkisvaldsins og á oftast lokaorðið þegar kemur að réttarstöðu einstaklinga og lögaðila.
Farið verður yfir hlutverk dómsvaldsins og hvernig sjálfstæði þeirra er tryggt í stjskr. og dsl. ásamt því að bornar verða saman stjórnarskrár Íslands og Danmerkur og kannað verður hvort dönsk stjórnskipun tryggi sjálfstæði dómstóla sinna með tryggari hætti en sú íslenska.
Því næst verður fjallað um hvernig skipan dómara fer fram samkvæmt íslenskum lögum og hvaða reglur dsl. setur dómendum í störfum þeirra, til þess að tryggja að almenningur geti borið traust til dómstólaskipanar Íslands og dómendanna sjálfra. Farið verður yfir hvernig dómnefnd er skipuð, hvert hlutverk hennar er og hversu bindandi umsagnir hennar eru fyrir ráðherra, ásamt því að vikið verður að svonefndu Landsréttarmáli sbr. Hrd. 19. desember 2017 (591/2017) og Hrd. 19. desember 2017 (592/2017), sem vakti mikla athygli þegar dómsmálaráðherra ákvað að víkja frá umsögn dómnefndar við skipun dómara við Landsrétt. Í kjölfar Landsréttarmálana kærði Guðmundur Andri Ástráðsson mál sitt til Mannréttindadómstóls Evrópu sbr. MDE., Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi, 1. desember 2020 (26374/18) sem komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir skammstöfuð MSE.).
Í kjölfarið verður farið yfir hvort hægt sé að tryggja sjálfstæði dómstóla og skipun dómara betur með breytingum á núverandi löggjöf.
Með þessari umfjöllun er ætlunin að varpa ljósi á mikilvægi sjálfstæðis dómstóla, tryggingu fyrir réttlátri málsmeðferð í lýðræðislegu samfélagi og að almenningur geti borið traust til dómstólaskipanar landsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð - Sara LOKA pdf.pdf | 354,51 kB | Lokaður til...01.01.2026 | Heildartexti | ||
2024_Skemman_yfirlysing3__1_.pdf | 217,92 kB | Lokaður | Yfirlýsing |