Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/4937
Þau grundvallarréttindi sem kveðið er á um í vestrænum stjórnarskrám og alþjóðlegum sáttmálum hafa sannarlega ekki alltaf verið talin til mikilvægustu reglna í skipulagi ríkja. Það er því eðlilegt að spurt sé: Hvert má rekja þá hugmynd að mönnum beri ákveðin meðfædd réttindi? Í alþjóðlegum mannréttindasamningum hefur verið mælt fyrir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða en hugtakið sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins virðist þó ekki hafa ratað inn í þau mannréttindaákvæði sem í dag gegna veigamiklu hlutverki sem ein af undirstöðum hvers lýðræðisþjóðfélags. Í þessari ritgerð er lagt upp með það að sjálfsákvörðunarréttur sérhvers manns njóti vissulega verndar, en hvar og hvernig birtist sú vernd? Hér verður leitast við að svara ofangreindum spurningum auk þess sem ýmis önnur nátengd álitamál verða tekin til umfjöllunar. Efni ritgerðarinnar verður byggt upp með þeim hætti að í fyrstu köflunum verður fjallað um breytilegt inntak sjálfsákvörðunarréttarins (kafli 2) og sögulega þróun hugmynda um sérstök grundvallarréttindi (kafli 3). Því næst verður gerð grein fyrir tryggingu sjálfsákvörðunarréttarins í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þeim alþjóðlegu mannréttindasáttmálum sem máli skipta fyrir íslenskan rétt og síðari umfjöllun ritgerðarinnar (kafli 4). Þar á eftir verður leitast við að svara spurningunni um hvar og hvernig vernd sjálfsákvörðunarréttarins birtist með því að greina inntak hugtaksins einkalíf í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og skoða skýringu og túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á sambærilegu hugtaki í 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem ómögulegt er að gera grein fyrir öllum þeim sviðum þar sem reynt getur á sjálfsákvörðunarrétt manna var valin sú leið að takmarka umfjöllunina við valin álitaefni sem að mati höfundar varða mjög persónuleg málefni einstaklinga. Enn fremur verður gerð grein fyrir þeim skilyrðum 2. og 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. MSE sem verða að vera uppfyllt til að takmarka megi sjálfsákvörðunarrétt manna og jafnframt þeim jákvæðu skyldum sem ríki þurfa að uppfylla til að tryggja að réttindin samkvæmt 8. gr. MSE verði virk í raun (kafli 5). Þá verður þeirri spurningu velt upp hvort sjálfsákvörðunarrétturinn feli í sér að menn geti afsalað sér grundvallarréttindum sínum. Til að leita svara við því verða áhrif samþykkis brotaþola á sviði refsiréttar skoðuð, einkum með tilliti til manndráps, líkamsmeiðinga og kynferðisbrota og vikið að afstöðu Mannréttindadómstólsins í dómi MDE, Pretty gegn Bretlandi, 29. apríl 2002 (2346/02) (kafli 6). Að því loknu verður fjallað um meðfæddan rétt manna til sjálfsákvörðunar. Sérstaklega verður fjallað um álitaefni sem snúa að sjálfsákvörðunarrétti barna og einstaklinga sem haldnir eru andlegum annmarka þar sem oft getur skort á að þessir einstaklingar njóti fulls gerhæfis til að taka sjálfir ákvarðanir um eigið líf (kafli 7). Að lokum verða helstu niðurstöður dregnar saman í lokaorðum (kafli 8).
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins - prentun 1.pdf | 724.04 kB | Open | Heildartexti | View/Open |