Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4979
Meginviðfangsefni ritgerðarinnar er að kanna hvernig réttur einstaklinga til framfærslu vegna fátæktar er verndaður í íslenskum rétti. Viðfangsefnið er afmarkað með þeim hætti að ákvæði laga, sem veita einstaklingum rétt til aðstoðar á þeim grundvelli einum að þeir geti ekki séð fyrir sér sjálfir, eru tekin til skoðunar. Í upphafi er vikið að vernd réttarins í alþjóðlegum rétti og þá sérstaklega þeim mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Því næst er fjallað um hvernig rétturinn hefur þróast í íslenskri löggjöf frá því á þjóðveldisöld. Þá er vernd réttarins samkvæmt stjórnarskránni tekinn til skoðunar. Kannað er hvað felst í ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og gerð grein fyrir aukinni þýðingu þess eftir að hinn stefnumarkandi öryrkjadómur var kveðinn upp. Í 5. kafla er fjallað um fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þessi kafli er þungamiðja ritgerðarinnar. Löggjafarvaldið hefur veitt sveitarfélögum mikið svigrúm til þess að útfæra fjárhagsaðstoðina og því er lögð áhersla á að kanna hvort réttaröryggi borgaranna sé nægilega tryggt. Sjónum er beint að því því hvernig vald sveitarfélaganna er takmarkað. Vikið er að þeim lagaákvæðum sem sveitarstjórnir þurfa að taka mið af við setningu reglna um fjárhagsaðstoð. Ítarlega er fjallað um þær málsmeðferðar og efnisreglur sem félagsmálanefndum ber að fylgja við töku ákvarðana um fjárhagsaðstoð. Þá er einnig gerð grein fyrir því hvernig eftirliti með fjárhagsaðstoðinni er háttað. Í ritgerðinni er vikið að dönskum og norskum rétti til samanburðar þegar við á.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
meistararitgerð.pdf | 501.14 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |