is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4986

Titill: 
  • Stjórnvaldssektir Fjármálaeftirlitsins og refsihugtak Mannréttindasáttmála Evrópu
Titill: 
  • Administrative Fines of the Financial Supervisory Authority: Criminal or Civil Penalties According to the ECHR?
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Þann 17. mars 2007 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 55/2007 um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Með lögunum var kveðið á um heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að ljúka málum vegna brota gegn ýmsum sérlögum á fjármálamarkaði með stjórnvaldssektum í stað hefðbundinnar refsimeðferðar. Að íslenskum rétti falla stjórnvaldssektir, eins og önnur stjórnsýsluviðurlög, í flokk refsikenndra viðurlaga en teljast ekki til eiginlegra refsinga eins og fésekta eða fangelsis skv. 31. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þrátt fyrir framangreinda flokkun að íslenskum rétti má sjá að stjórnvaldssektir eiga ákveðin einkenni sameiginleg með fésektum sem dómstólar dæma í refsimálum. Þar sem réttaröryggi aðila er almennt talið betur borgið með refsimeðferð fyrir dómstólum heldur en stjórnsýslumeðferð mála vegna lögbrota er það vert álitaefni hvar mörkin milli eiginlegra refsinga og stjórnvaldssekta raunverulega liggja. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í fjölmörgum málum talið að refsihugtak Mannréttindasáttmála Evrópu hafi sjálfstæða þýðingu óháð því hvernig flokkun viðurlaga er að landsrétti aðildarríkja sáttmálans. Meginmarkmið ritgerðarinnar er að svara því hvort stjórnvaldssektir Fjármálaeftirlitsins falli undir refsihugtak Mannréttindasáttmálans.
    Í ritgerðinni eru tilgangur og markmið stjórnvaldssekta Fjármálaeftirlitsins tekin til skoðunar auk þess sem greint er frá sjónarmiðum varðandi hvort þeim skuli beitt í einstökum málum og þá hvernig. Að þeirri skoðun lokinni er gerð grein fyrir þeim ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu sem helst þarf að huga að við beitingu stjórnvaldssektanna. Þannig er gerð grein fyrir þýðingu 6. gr. sáttmálans fyrir þann sem beittur er stjórnvaldssektum Fjármálaeftirlitsins, einkum varðandi rétt til að bera mál sitt undir sjálfstæðan og óvilhallan dómstól, réttinn til þess að teljast saklaus uns sekt er sönnuð og réttinn til þess að fella ekki á sig sök. Jafnframt er gerð grein fyrir þýðingu 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við sáttmálann varðandi meginregluna um ne bis in idem og hvernig réttindi sem fólgin eru í ákvæðinu lúta að beitingu stjórnvaldssekta Fjármálaeftirlitsins.
    Eins og rakið verður í ritgerðinni er refsihugtak Mannréttindasáttmálans hið sama óháð því hvaða grein hans er til skoðunar. Að þeirri niðurstöðu fenginni er gerð grein fyrir aðferðum Mannréttindadómstólsins við ákvörðun þess hvort stjórnvaldsathöfn í tilefni af lögbroti falli undir refsihugtak sáttmálans. Sú aðferð felst í beitingu hinna svonefndu Engel-viðmiða sem eru þrjú talsins. Fyrsta Engel-viðmiðið lýtur að skilgreiningu viðurlaga að landsrétti, annað viðmiðið er mat á raunverulegu eðli háttseminnar og með þriðja viðmiðinu er skoðað hvert eðli viðurlaganna er ásamt því hversu þungbær þau eru. Með hliðsjón af þessum viðmiðum og þeim sjónarmiðum sem notuð hafa verið við beitingu þeirra er sett fram sú niðurstaða að stjórnvaldssektir Fjármálaeftirlitsins falli undir refsihugtak Mannréttindasáttmála Evrópu.

Samþykkt: 
  • 6.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4986


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð VGH ENDANLEG.pdf813.1 kBLokaðurHeildartextiPDF