is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5016

Titill: 
  • Ísland, staður í bók. Hugmyndin um Ísland í textum Giacomo Leopardi, Giorgio Manganelli og Valeria Viganò
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Staður getur kallað fram ólíkar myndir og hughrif með fólki og hver og einn býr til sinn eigin stað úr því sem hann skynjar. Með því að miðla persónulegri upplifun staðar í ferðasögu, hvort sem hún er sögð með orðum eða myndum, eignast fleiri aðgang að þeirri hugmynd og hún verður liður í því að styrkja og viðhalda ímynd staðarins eða breyta henni og búa til nýjan. Staður í tíma og rúmi öðlast þannig ákveðið gildi þegar hann hefur verið speglaður í huga einhvers og búinn til í ferðasögu hans. Bókmenntir geta hjálpað okkur að skilja staði og miðla staðreyndum um þá, verða nokkurs konar landafræði. Oft hefur fólk heyrt um og telur sig jafnvel þekkja staði sem það hefur ekki komið á í raun því það hefur lesið eða heyrt talað um hann. Þannig er ímyndunaraflið virkjað. Hver einstaklingur skynjar þannig stað út frá persónulegri reynslu sinni, oft langt út fyrir staðreyndir. Þetta er eitt af viðfangsefnum þessarar ritgerðar. Hér birtast þrjár myndir af Íslandi í þremur textum eftir þrjá ítalska höfunda. Þessir þrír höfundar endurbyggja staðinn Ísland í texta sínum, hver á sinn hátt. Túlkun þeirra er lík að sumu leyti og ólík að öðru en aðalatriðið er að hugmyndir þeirra allra eru raunsannar því hugmynd er margbrotin og getur ekki talist sannleikur eða rétt eða röng.
    Fyrsti textinn er eftir Giacomo Leopardi (1798–1837), ítalskt skáld og heimspeking sem kom aldrei til Íslands en skrifar út frá þeim hugmyndum sem aðrir höfðu miðlað í skrifum sínum um landið. Annar textinn er eftir rithöfundinn og blaðamanninn Giorgio Manganelli sem kom til landsins árið 1978 og er um ferð hans um Ísland í leit að svari við ákveðinni spurningu. Þriðji textinn er eftir blaðakonu, Valeriu Viganò að nafni, sem lagði upp í Íslandsferð árið 2003 með vinkonu sinni eftir að hafa í æsku lesið ljóð eftir breska skáldið W.H. Auden (1907–1972). Það er þeirra persónulega endurbygging staðarins sem birtist í ferðasögunni, eða dæmisögunni eins og í tilfelli Leopardi, um Ísland.
    Í fyrsta kafla er fjallað um tengsl bókmennta og staða og viðhorf manna til náttúrunnar í tímans rás. Annar kafli fjallar um menningu, ferðasögur og ferðalög um land og landslag. Þar á eftir koma þrír kaflar sem hver um sig fjallar um Íslandslýsingar höfundanna þriggja og textar þeirra eru greindir og skoðaðir. Að síðustu eru niðurstöðurnar dregnar saman í lokakaflanum.

Samþykkt: 
  • 7.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5016


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hlif_Ingibjörnsdóttir_BA-íslenska.pdf397.77 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna