is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár) Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5018

Titill: 
  • Sjálfsmynd í spegli heimsins. Um heimsmyndir, óríentalisma og ævintýralegar fornaldarsögur
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Fornaldarsögur eru umfjöllunarefni þessarar ritsmíðar. Inntak hennar er tvíþætt: Annars vegar að gera grein fyrir sögunum sem bókmenntagrein og viðtökum þeirra. Í því samhengi er hugað að flokkun þeirra sem er umdeild og einkennum sagnanna. Varðveisla og vinsældir efnis fornaldarsagna í munnlegri hefð hefur stuðlað að því að þær hafa lifað allt fram á okkar tíma en viðhorf fræðimanna til þeirra hefur oft og tíðum verið blendið. Ýmist hafa þær verið hafðar upp til skýjanna eða stungið undir stól. Efni þeirra var vinsælt til skemmtunar löngu áður en þær voru skrifaðar niður. Á ritunartíma gegndu þær því hlutverki að staðsetja Íslendinga í menningarhefð Evrópu. En skrifin á eyjunni í miðju Atlantshafi vekja ekki athygli fyrr en á 17. öld, þegar aðrar Norðurlandaþjóðir uppgötva að í þeim megi finna sagnir úr sameiginlegri fortíð. Fornaldarsögur öðlast sagnfræðilegt gildi um hríð en með upplýsingu dvínar trú manna á frásagnirnar sem raunverulega sagnfræði og gagnrýni veldur því að viðhorfið verður neikvætt til fornaldarsagna, langt fram á 20. öld.
    Annars vegar er áherslan á innihald sagnanna. Ferðir sögupersónanna og fyrirmynda þeirra um heiminn eru skoðaðar í ljósi tvíhyggju. Hugað er að hvernig menning sem túlkar reynslu manna og færir hana inn í sagnahefðina aðskilur eina þjóð frá annarri. Hún setur sig í miðju og merkir jaðar sinn sem landamæri yfir í aðra heima. Þar búa annars flokks verur sem lúta öðrum lögmálum en innan menningarmiðjunnar. Í fornaldarsögunum er heimur goðanna yfirfærður á mannheima og er hliðstæður að mörgu leyti. Þessa túlkun mannheima og goðheima má sjá í fornaldarsögunum tveimur, Gríms sögu loðinkinna, þar sem tengsl við samfélagið og sagnahefðina eiga sér djúpar rætur og síðan Sörla sögu sterka þar sem evrópsk sagnagerð og vinsæl fræðirit þess tíma hafa meiri áhrif. Í báðum tilvikum má sjá túlkun á samskiptum við framandi menningu, hvort sem um er að ræða heimssýn norrænnar fornaldar eða miðaldamanna.

Samþykkt: 
  • 7.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5018


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA Lokager%F0.pdf704.89 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna