Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/50229
Inngangur: Slit á ACL eru alvarleg íþróttameiðsl en algengast er að áverkinn verði snemma í stöðufasa við hraðar íþróttahreyfingar. Aukin tíðni ACL slita sést þar sem hraði íþrótta er mikill en svo virðist sem ungar íþróttakonur í hröðum íþróttum séu í mestri áhættu á slitum. Kiðvægi í hné eykur strekk á ACL og hefur þar af leiðandi verið rannsakað í tengslum við meiðslin. Nálgunarhraði virðist auka kiðvægi en í þessari rannsókn verður samband nálgunarhraða og kiðvægis skoðað snemma í stöðufasa í hröðum íþróttahreyfingum hjá stelpum í stefnubreytingaríþróttum. Einnig verður nálgunarhraði og kiðvægi borið saman á milli þátttakenda sem hafa slitið ACL og þátttakenda sem hafa ekki slitið.
Aðferðir: Þessi lífaflfræðilega þversniðsrannsókn notaðist við 12 myndavéla hreyfiföngunarbúnaður og kraftplötu við mælingar sem fóru fram á Rannsóknarstofu í endurhæfingar- og hreyfivísinum við Háskóla Íslands. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 13 stelpur á aldrinum 15-22 ára sem voru virkar í stefnubreytingaríþróttum og framkvæmdu þær fjórar hreyfingar; einfætt fallstökk, gabbhreyfingu án atrennu, gabbhreyfingu með atrennu og hliðarskrefum 10 sinnum á hvorn fót. Að auki fengust gögn frá 10 þátttakendum úr fyrri rannsókn. Gagnaúrvinnsla fór fram í Visual3D. Fundið var hæsta gildi kiðvægis á fyrstu 80 ms stöðufasa og meðalhraði þungamiðju módels síðustu 100 ms fyrir stöðufasa fótar. Blönduð líkön voru notuð við tilgátuprófun og miðuðust marktektarmörk við p < 0,05.
Niðurstöður: Kiðvægi fyrstu 80 ms stöðufasa jókst með auknum nálgunarhraða 100 ms fyrir stöðufasa (p= < ,001 og 95% ÖM 0,190 til 0,440). Niðurstöður sýndu hvorki mun á nálgunarhraða (p= 0,851 og 95% ÖM -0,0846 til 0,1026) né á kiðvægi (p= 0,980 og 95% ÖM - 0,200 til 0,205) milli þátttakenda sem höfðu slitið ACL og þeirra sem höfðu ekki slitið ACL. Víxlhrif sýndu hins vegar að nálgunarhraði var lægri hjá ACL hópnum í gabbhreyfingu með atrennu (p= < ,001 og 95% ÖM -0,4829 til 0,2457). Víxlhrif sýndu einnig að kiðvægi var lægra hjá ACL hópnum í gabbhreyfingu með atrennu (p= ,001 og 95% ÖM -1,486 til -0,5562).
Ályktanir: Kiðvægi eykst með nálgunarhraða, óháð ACL sögu en einstaklingar með sögu um ACL slit virðast fara hægar í hraðari stefnubreytingar. Gabbhreyfing án atrennu gæti nýst til að greina áhættu á ACL slitum áður en hraði hreyfinga eykst.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð_lokaútgáfa.pdf | 1,01 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing, skemman.pdf | 317,91 kB | Lokaður | Yfirlýsing |