Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/50235
Inngangur: Heilablóðfall er algeng orsök færniskerðingar og getur valdið langvarandi líkamlegum og vitrænum einkennum sem hafa veruleg áhrif á daglegt líf. Endurhæfing gegnir lykilhlutverki í kjölfar heilablóðfalls þar sem einblínt er á að efla færni, hreyfigetu, styrk og jafnvægi og þar af leiðandi sjálfstæði einstaklinga. Um þriðjungur einstaklinga er göngufær eftir heilablóðfall, þ.e. þeir geta gengið með eða án hjálpartækja og án stuðnings frá öðrum einstaklingi. Þó að einstaklingar teljist göngufærir eftir heilablóðfall er göngugeta og færni þeirra oft skert. Markmið rannsóknarinnar er að kanna árangur endurhæfingar, með áherslu á sjúkraþjálfun, á færni, göngugetu, styrk, jafnvægi og handafærni hjá göngufærum einstaklingum eftir heilablóðfall.
Aðferð: Gögnum var safnað úr sjúkraskrám einstaklinga 18 ára og eldri sem lögðust inn á Grensás í kjölfar heilablóðfalls á árunum 2013-2023. Upplýsingar um göngufærni voru skráðar ásamt niðurstöðum úr upphafs- og lokamælingum um eftirfarandi mælitæki: Modified-Motor Assessment Scale UAS-99 (MAS UAS-99), Timed Up and Go (TUG), Five Times Sit-to-Stand (FTSST), 10 metra göngupróf, 6 mínútna göngupróf (6MWT), 2 mínútna göngupróf (2MWT), modified Dynamic Gait Index (mDGI), gripstyrk og Nine Hole Peg Test (NHPT). Parað t-próf var notað til að bera saman fyrri og seinni mælingar og meta árangur meðferðar.
Niðurstöður: Um 51% (n=277) einstaklinga var göngufær við innlögn á Grensás árin 2013-2023. Framfarir sáust á færni, styrk, gönguhraða, gönguúthaldi, göngujafnvægi og handafærni hjá úrtaki rannsóknarinnar. Marktækur munur var á fyrri og seinni mælingum fyrir M-MAS UAS-99 (p<0,001), TUG (p<0,001), FTSST (p<0,001), 10 metra göngupróf (p<0,001), 6MWT (p<0,001), mDGI (p=0,006), gripstyrk (p<0,001) og NHPT vinstra megin (p<0,001). Munur á mælingum fyrir 2MWT (p=0,063) og NHPT (p=0,097) hægra megin var ekki marktækur.
Ályktun: Rannsóknin sýnir að góður árangur næst með sjúkraþjálfun hvað varðar almenna færni, göngugetu, styrk, jafnvægi og handafærni hjá göngufærum einstaklingum eftir heilablóðfall. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi frammistöðumælinga í endurhæfingu og bendir til þess að sjúkraþjálfun sé veigamikill þáttur í bataferli eftir heilablóðfall þrátt fyrir takmarkaðar samanburðarmælingar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistaraverkefni - Árangur sjúkraþjálfunar eftir heilablóðfall-LOKA.pdf | 520,64 kB | Lokaður til...14.06.2028 | Heildartexti | ||
Skemman yfirlýsing.pdf | 280,78 kB | Lokaður | Yfirlýsing |