Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/50345
Í þessari ritgerð er leitast við að greina félagsleg áhrif tölvuleikjaspilunar út frá sjónarhorni leikmanna sjálfra. Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem tekin voru hálfstöðluð viðtöl við sex einstaklinga á mismunandi aldri sem spila tölvuleiki reglulega. Sérstök áhersla var lögð á að bera saman upplifun og viðhorf til einspilunar- og fjölspilunarleikja og hvernig þessi tvö leikjaform hafa ólíkt vægi í félagslegu og persónulegu lífi spilara. Fræðilegur grunnur ritgerðarinnar byggir meðal annars á kenningum Sicart, Juul og Isbister um tölvuleiki sem siðferðileg, sálræn og menningarleg fyrirbæri. Einnig er stuðst við rannsóknir um áhrif tölvuleikja á félagsfærni, sjálfsmynd, samkennd og tilfinningastjórnun.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að tölvuleikir eru margþættir að formi og tilgangi. Þeir leikmenn sem kjósa einspilunarleiki sækja gjarnan í dýpri frásagnarupplifun, sjálfskoðun og tilfinningalega úrvinnslu – í samræmi við kenningar Sicart (2009) og Isbister (2016) um siðferðilegt gildi einspilunarleikja og hlutverk þeirra í mótun sjálfsmyndar og samkenndar. Þeir sem kjósa fjölspilunarleiki leggja hins vegar áherslu á samkeppni, vinatengsl og félagslega þátttöku, sem samræmist rannsóknum Williams o.fl. (2008) og Kowert o.fl. (2014) um félagsleg áhrif netsamskipta í leikjum. Þá kemur fram að spilunartilgangur og samhengi hafi úrslitaáhrif á hvort leikjaspilun hafi jákvæð eða neikvæð áhrif, sem styður niðurstöður Przybylski o.fl. (2012) um muninn á flótta og jákvæðri sjálfsstjórn í leikjanotkun. Einnig var merkjanlegur munur á aldurshópunum en þrír spilarar eru fæddir árið 1995 og þrír árið 2007.
Rannsóknin sýnir að tölvuleikir geta bæði styrkt félagsleg tengsl, dregið úr streitu og eflt siðferðisvitund, en einnig stuðlað að ávanabindingu, svefntruflunum og félagslegri einangrun ef spilun er ómeðvituð eða tengd neikvæðu hugarástandi. Þannig varpa niðurstöðurnar ljósi á flókið eðli tölvuleikjaspilunar og styðja við mikilvægi þess að skoða tölvuleiki sem félagslegt og sálrænt fyrirbæri innan menningarlegs samhengis.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| BA-ritgerð lokaskil (1).pdf | 361,97 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| BA ritgerð. Skemman.pdf | 1,53 MB | Lokaður | Yfirlýsing |