Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5039
Ofbeldi er algengt á geðdeildum LSH eins og á sambærilegum geðdeildum erlendis. Viðbrögð við ofbeldi er eitt alvarlegasta og erfiðasta viðfangsefni starfsfólks geðdeilda. Víða á geðdeildum eru notaðir fjötrar til að róa órólega sjúklinga og hafa margar rannsóknir verið gerðar um kosti og ókosti þeirra. Færri rannsóknir hafa verið gerðar um aðferðir til að róa sjúklinga með því að tala við þá og með líkamlegri tjáningu. Tilgangur þessarar rannsóknar var því að kanna hvaða aðferðir starfsfólk geðdeilda notaði til að róa reiða og spennta sjúklinga. Rannsóknaraðferðin byggist á grundaðri kenningu (e: grounded theory) þar sem bæði eigindlegra og megindlegra gagna var aflað. Þátttakendur voru hjúkrunarstarfsfólk og sjúklingar á bráðalegugeðdeildum og endurhæfingadeildum LSH þar sem ofbeldi sjúklinga gagnvart starfsfólki er algengast.
Viðtöl voru tekin við starfsfólk um raunveruleg og ímynduð atvik. Starfsfólk á öllum deildunum var beðið um að skrá aðferðir sem það notaði þegar það hafði þurft að róa reiða og spennta sjúklinga. Viðtöl voru tekin við 52 sjúklinga. Spurningalisti um atriði sem tengjast aðferðum til að róa reiða og spennta sjúklinga var sendur öllum hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og stuðningsfulltrúum geðsviðs LSH og rannsakandi var tvo daga á hverri deild þar sem hann fylgdist með samskiptum starfsfólks og sjúklinga. Þegar starfsfólk róar sjúklinga talar það við þá á jafnréttisgrundvelli, biður þá um að róa sig og segist vilja hjálpa þeim. Það upplýsir einnig sjúklingana um deildarreglurnar. Starfsfólkið talar yfirleitt lægra en sjúklingarnir, rólega og skýrt en ekki í skipunartón. Svipbrigði starfsfólksins vísa til hlutleysis og virðingar. Handleggir eru kyrrir með síðum og lófar hafðir opnir. Handahreyfingar eru hægar. Viðmót starfsfólks sem það sýnir sjúklingnum er hjálpsemi og skilningur, virðing, ákveðni og óttaleysi. Starfsfólkið gætir einnig að eigin öryggi þegar það róar sjúklingana. Niðurstöðurnar sýna að það að róa reiða og spennta sjúklinga er flókið samspil orða og athafna. Þó ekki sé hægt að styðjast við sömu aðferðir til að róa alla sjúklinga eru ákveðin atriði sem þátttakendur töldu gagnlegri en önnur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
msritgerd_pdf.pdf | 1.67 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |