Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/50459
Inngangur: Banvænar eitranir eru algengt viðfangsefni réttarlækna. Við lok réttarkrufningar þarf að ákvarða dánaratvik, sem geta verið slys, sjálfsvíg, manndráp eða óviss dánaratvik. Hefð er fyrir því að styðjast einkum við breytur er varða kringumstæður andlátsins. Vert er að rannasaka hvort réttarmeinafræðilegar breytur, sem koma fram í krufningu, geti varpað frekara ljósi á greiningu dánaratvika.
Markmið: Að kanna hvort munur sé á réttarmeinafræðilegum þáttum í banvænum eitrunum með ólík dánaratvik.
Efni og aðferðir: Gögn um banvæn eitrunartilfelli voru sótt úr SymPathy – RMed, gagnagrunni meinafræðideildar Landspítalans. Safnað var upplýsingum um valdar réttarmeinafræðilegar breytur ásamt niðurstöðum úr réttarefnafræðilegum rannsóknum. Notast var við kí-kvaðratpróf og t-test við samanburð breyta. Tölfræðileg marktækni miðaðist við p-gildi < 0,05.
Niðurstöður: Af þeim réttarkrufningum sem uppfylltu rannsóknarskilyrði (N=362) voru slys algengustu dánaratvikin (50,6%), þar á eftir komu óviss dánaratvik (26,5%) og sjálfsvíg (22,9%). Tíðni manndrápa voru engin (N=0). Marktækur munur var á dánaratvikum karla og kvenna (p<0,001). Slys voru marktækt algengustu dánaratvik meðal karla (59,5%; p<0,001) en ekki reyndist marktækur munur á dreifingu dánaratvikum kvenna (p = 0,8559). Ásvelging á magainnihaldi sást frekar í slysum samanborið við sjálfsvíg (p=0,145), stunguför voru algengari í slysum samanborið við sjálfsvíg (p<0,001) og lyfjaleifar í meltingarvegi voru frekar til staðar í sjálfsvígum samanborið við slys (p<0,001). Ekki reyndist marktækur munur á öðrum réttarmeinafræðilegum breytum milli dánaratvika.
Ályktanir: Rannsóknin felur í sér nýja nálgun á hvernig litið er á eitranir í tengslum við dánaratvik. Enda hafa atriði er varða kringumstæður, vettvang og sjúkrasögu verið mikilverðustu vísar dánaratvika. Stunguför og ásvelging á magainnihaldi reyndust algengari í slysum, en lyfjaleifar voru algengari í sjálfsvígum. Þótt greining dánaratvika sé enn flókin gætu niðurstöður bent til þess að slys tengjast lengra dánarferli.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS_KSG.pdf | 1,2 MB | Lokaður til...16.05.2026 | Heildartexti | ||
Skemman_yfirlysing.pdf | 206,92 kB | Lokaður | Yfirlýsing |