is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5047

Titill: 
  • Af sjónhverfingum. Um sjálfsöguna og sjálfsöguleg einkenni í verkum Hermanns Stefánssonar, Níu þjófalyklar og Stefnuljós
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð er fjallað um sjálfsöguna (e. metafiction) og sjálfsöguleg einkenni í verkum Hermanns Stefánssonar, Níu þjófalyklar (2004) og Stefnuljós (2005). Ásamt Algleymi frá árinu 2008, mynda verkin þríleik sem fjallar um rithöfundinn Guðjón Ólafsson og eiginkonu hans Helenu. Sjálfsagan tengist umræðunni um póstmódernískar skáldsögur og er saga sem lýsir tilurð sinni og beinir sjónum að skrifum og sköpun skáldskapar almennt. Þrátt fyrir að sjálfsagan, sem meðvitað frásagnarform, spretti fram á 6. og 7. áratug síðustu aldar þekkjast sjálfsöguleg einkenni í bókmenntum og textum frá öllum tímum. Sem dæmi má nefna Don Kíkóta eftir Cervantes og Hamlet eftir Shakespeare. Bæði verkin byggja á speglunum og römmum sem varpa ljósi á tilurð þeirra og sköpun.
    Kenningar sjálfsögunnar tengjast öðrum fræðigreinum en fræðileg umfjöllun um sjálfsöguna hefur farið vaxandi á síðustu áratugum. Í þessari ritgerð er stuðst við frásagnarspegil (fr. mise-en-abyme) Luciens Dällenbachs sem sýnir hvernig sjálfsvitund frásagna birtast í speglunum. Frásagnarspegillinn staðsetur sjálfsögulegan ramma í bókmenntaverkum og varpar ljósi á umræðuna sem verkin fela í sér og snýr að skrifum og skáldskap almennt. Í verkum Hermanns er rithöfundurinn Guðjón augljósasta dæmið um frásagnarspegil og athugasemdir hans í frásögninni skírskota til skrifa söguhöfundar. Sjálfsagan vinnur einnig undir formerkjum afbyggingar því hún leitast við að grafa undan skálduðum veruleika og brjóta niður þann ramma sem áður aðgreindi skáldaðan veruleika frá veruleikanum. Sjálfsagan minnir því á aðferðir sjónhverfinga sem afhjúpa blekkinguna sem skálduð frásögn byggir á.
    Þá er í ritgerðinni einnig rýnt í kenningar um textatengsl og sýnt fram á hvernig slík tengsl eru birtingarmyndir sjálfsögulegra einkenna. Rétt eins og í tilfelli frásagnarspegilsins birtist sjálfsvitund frásagnarinnar í vísunum í aðra texta. Textatengsl gegna þar af leiðandi því hlutverki að draga athyglina að skáldskaparlegum einkennum frásagnarinnar. Umræðan um textatengsl í Níu þjófalyklum og Stefnuljósi birtist bæði í söguefni verkanna, þ.e. í orðræðu sögupersónanna, og í stílfræðilegum þáttum eins og myndlíkingum. Áherslan á textatengsl undirstrikar textatengda stöðu allra frásagna og samræðuvirkni frásagnarinnar; textinn er fyrst og fremst samræða á milli söguhöfundar og lesanda. Þátttaka lesandans hefur mikið vægi í merkingarsköpun textans og grefur undan valdi höfundarins í textanum.

Samþykkt: 
  • 10.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5047


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Vera BA-ritgerð _6.5.pdf320.82 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna