Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/50549
Effects of microbial inoculation, fertilizer addition and planting spot on the survival and growth of Pinus contorta and Populus trichocarpa seedlings
Afföll í nýskógrækt á Íslandi eru töluverð og er því sífellt unnið að því að bæta lifun skógarplantna. Meðal þess sem skiptir máli er réttur undirbúningur lands, val á vaxtarstöðum, áburðargjöf, tegundaval og plöntugæði. Í þessari rannsókn voru athuguð áhrif jarðvegssmits úr skógi og lúpínubreiðu, hefðbundnar áburðargjafar og mismunandi gróðursetningarstaða á lifun og vöxt alaskaaspar (‘Iðunn’) og stafafuru (uppruni Skagway). Tilraunalandið var jarðunnið var með skógarstjörnu og báðar trjátegundir voru gróðursettar í þrennskonar gróðursetningarstaði: torfu, holu og svarðsár, en einnig í óhreyft land til samanburðar.
Heildarlifun í tilrauninni var 50%, en 63% aspa og 38% furuplanta voru á lífi. Breytileiki í lifun og vexti var mestur á milli gróðursetningarstaða. Aspir sem höfðu verið gróðursettar í torfur voru nær allar á lífi, sem var betri útkoma en á öðrum stöðum í jarðvinnslunni. Aspir í torfum voru einnig marktækt hærri en annars staðar. Öfugt við aspir voru furur marktækt hærri í holum en í öðrum gróðursetningarstöðum og lifun þeirra var einnig best í holunum. Áburðargjöf hafði engin áhrif á lifun furuplantna en hafði marktæk jákvæð áhrif á vöxt aspa. Engin marktæk áhrif voru af notkun jarðvegssmits.
Ólíkar kröfur og þol trjátegundanna ásamt umhverfisaðstæðum á mismunandi stöðum í jarðvinnslunni skýra samspilið á milli tegunda og gróðursetningarstaða. Hækkunin sem plönturnar fá ofan á torfunni virðist duga til að forða öspinni frá frostskaða niðri við jörð síðsumars. Fura lýkur vexti fyrr en öspin og þolir því síðsumarsfrostin betur, en þar að auki virðist skjólið sem furur fá í holum verja þær frá barrskemmdum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að alaskaösp sé álitleg í nýskógrækt í sléttlendum móum í Hvammi, ef plönturnar eru gróðursettar í hæfilega stórar torfur eftir skógarstjörnu.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| BS_Salka_Einarsdottir_2025.pdf | 1 MB | Opinn | Skoða/Opna |