Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/50795
Markaðssetning snyrtivara sem beinist að börnum og unglingum hefur aukist verulega á undanförnum árum, sérstaklega með útbreiðslu samfélagsmiðla. Snyrtivöruiðnaðurinn, sem áður var fyrst og fremst ætlaður fullorðnum, beinist nú í auknum mæli að ungum neytendum. Leiðir það til ýmissa áskorana og áhættuþátta. Auglýsingar leggja gjarnan áherslu á óraunhæfa fegurðarstaðla sem geta haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd og líkamsímynd barna og unglinga. Samfélagsmiðlar á borð við TikTok, Instagram og YouTube hafa gert áhrifavalda að lykilaðilum í dreifingu markaðsefnis, sem oft er sett fram sem persónuleg reynsla fremur en hefðbundin auglýsing. Þessi þróun vekur upp spurningar um lagalega og siðferðislega ábyrgð fyrirtækja sem markaðssetja snyrtivörur til ungra neytenda. Í ritgerðinni er greint frá helstu áhættuþáttum slíkra markaðsaðferða, þar á meðal áhrifum á sálræna líðan barna, staðalímyndir kynjanna, ótímabærri kynhneigð og heilsufarslega áhættu sem fylgir notkun snyrtivara á ungum aldri. Einnig er fjallað um gildandi löggjöf á þessu sviði, þar á meðal lög um neytendavernd, eftirlit með viðskiptaháttum og persónuverndarlög. Með samanburði við löggjöf í Noregi, Svíþjóð og Danmörku er leitast við að varpa ljósi á hvaða úrbætur gætu verið nauðsynlegar hér á landi til að tryggja betri vernd barna gegn skaðlegri markaðssetningu snyrtivara. Að lokum er farið yfir þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til ásamt tillögum að fleiri aðgerðum, svo auka megi neytendavernd barna og í lokaorðum er farið yfir mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar og nauðsyn þess að hvetja fyrirtæki á þessum vettvangi til að þróa auglýsingastefnu sem tekur mið af velferð ungra neytenda.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| ML-Lokaskil-KE.pdf | 4,44 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |