Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/50927
Kórsöngur á Íslandi er tiltölulega ungur ef svo má að orði komast. Pétur Guðjónsson var kennari við Lærða skólann á Bessastöðum og upp úr 1840 fór hann að æfa skólapilta í fjórradda söng og má því segja að þarna hafi orðið til fyrsti kórinn á Íslandi. Frú Olufa Finsen bjó í Reykjavík á árunum 1865 til 1882. Hún hafði góða söngrödd og spilaði einnig á hljóðfæri. Hún æfði saman söngflokk karla og kvenna sem kom fram á skemmtun sem hún stóð fyrir árið 1866 og þar mátti heyra í fyrsta sinn opinberlega í blönduðum kór. Söngur blandaðra kóra fór meira fram innan kirkjunnar en karlakórar voru flaggskip kóramenningar út á við. Útgáfa á nótnaheftum fyrir kóra var af skornum skammti en þó voru kirkjunnar menn duglegir við að gefa út bækur með rödduðum söng. Má nefna Jónas Helgason í þeim efnum og svo í lok 19. aldar gaf Bjarni Þorsteinsson út hátíðarsöngva sína. Á fyrri hluta 20. aldar voru farnir að koma fram fleiri kórar og einnig var söngkennsla í skólum. Það vantaði því tilfinnanlega bækur með alþýðulögum fyrir fjórradda söng. Bóndasonur úr Borgarfirði, Þórður Kristleifsson að nafni, var okkar helsti frumkvöðull í þeim efnum. Þórður kynntist ungur söng og kórsöng í alþýðuskóla sr. Ólafs Ólafssonar í Hjarðarholti og hélt síðan til Danmerkur og Ítalíu í söngnám. Hann varð aldrei sá söngvari sem hugur hans stóð til en þeim mun meira lét hann verkin tala þegar kom að kórsöngnum. Hann var ráðinn söng- og íslenskukennari við Héraðsskólann á Laugarvatni árið 1930 og lét strax til sín taka í söngmálum. Árið 1937 var Þórði falið á fundi félags alþýðuskólakennara að safna efni í úgáfu á bókum fyrir skóla og alþýðu. Og í framhaldinu komu út bækurnar Ljóð og lög.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Ljóð og lög Þórðar Kristleifssonar - Hver voru áhrif Þórðar Kristleifssonar og hans verka.pdf | 453,52 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |