Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5112
Í þróuðum ríkjum eru útgjöld til heilbrigðismála að verða sífellt veigameiri þáttur í ríkisrekstri og hefur almenn umræða um efnahagslega kosti þess að stuðla að betri úthlutun auðlinda í heilbrigðiskerfinu aukist til muna síðustu áratugi. Með notkun svokallaðrar kostnaðarvirknigreiningar, er möguleiki á að nálgast ákveðnar upplýsingar, sem hægt er að nota til grundvallar ábyrgrar ákvörðunartöku í heilbrigðiskerfinu, og þar með stuðla að hagkvæmari og árangursríkari úthlutun auðlinda.
Kostnaðarvirknigreining er aðferð, sem gerir rannsakendum kleift að bera saman tvær samanburðarhæfar einingar, með tilliti til áhrifa þeirra og kostnaðar. Notkun kostnaðarvirknigreiningar er nokkuð algeng í vestrænum ríkjum við ákvarðanatöku takmarkaðra auðlinda, en seinustu áratugi hefur færst í aukana að hún sé notuð til hliðsjónar við ákvarðanatöku í heilbrigðismálum þegar um mismunandi meðferðarúrræði er að ræða. Kostnaðarvirkni er yfirleitt reiknuð sem kostnaður ákveðins meðferðarúrræðis umfram sparnað á hvert unnið lífsgæðavegið lífár (QALY). Þannig er hægt að leggja mat á hvort að gefið meðferðarúrræði skili nægjanlegum árangri með tilliti til heildaráhrifa þess á samfélagslegan ábata. Greiningin sér rannsakendum ekki aðeins fyrir upplýsingum um hvaða meðferðir eru árangursríkastar með tilliti til kostnaðar, heldur getur hún einnig veitt innsýn í aðra mikilvæga þætti, sem erfitt er að nálgast með öðrum hætti.
Tilgangurinn með þessari ritgerð er að kynna hugtakið kostnaðarvirknigreiningu og verður fjallað um hana með sérstöku tilliti til notkunar hennar til grundvallar ákvarðanatöku í heilbrigðiskerfi. Fjallað verður um hvernig greiningin er framkvæmd og hvernig hægt er að nýta mismunandi upplýsingar hennar til þess að lágmarka kostnað við heilbrigðisþjónustu.
Lykilorð:
Kostnaðarvirknigreining
Kostnaðarvirknistuðull
Lífsgæðavegin lífár (QALY)
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS-EvaKatrinPDF.pdf | 627.64 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |