Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5126
Á síðustu 20 árum hefur mikil aukning orðið á milliríkjaverslun. Dregið hefur verið úr hindrunum í milliríkjaviðskiptum og markaðssvæði hafa verið stækkuð. Breytt viðskiptaumhverfi, ný upplýsingatækni og lækkandi flutningskostnaður hefur haft áhrif á viðskiptamáta fyrirtækja. Alþjóðavæðing í tengslum við aukin viðskiptaleg samskipti á milli þjóða hefur ennfremur leitt til aukinnar samkeppni sem ýtt hefur undir samruna fyrirtækja til að gera þau samkeppnishæfari á stærri mörkuðum. Við þetta hafa aðrir samkeppnishættir orðið til og samkeppnishindranir breytt um form. Til að takast á við þau samkeppnislegu vandamál sem hafa skapast af breyttum aðstæðum hefur samkeppnisreglum flestra þjóða og ríkjabandalaga, s.s. hjá Evrópusambandinu, verið fjölgað á síðari árum, þær eldri verið skerptar og framkvæmd samkeppnisreglna samræmd og styrkt. Að baki þeim breytingum liggja þau almennu hagfræðilegu sannindi að samkeppni í viðskiptum efli hagvöxt.
Samrunareglur eru einn af hornsteinum samkeppnisréttarins. Gegna þær mikilvægu hlutverki við að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna eða yfirtöku, á þann hátt að samkeppni hverfi eða minnki til muna. Yfirtaka eins fyrirtækis á öðru eða samruni fyrirtækja getur leitt til þess að samkeppni, sem hefur verið til staðar, minnkar eða jafnvel hverfur. Þannig getur orðið til fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu eða jafnvel einokun á markaðnum. Virk samkeppni færir neytendum ávinning í formi lægri vöruverða, meiri gæða á vöru og þjónustu, breiðari vöruúrvals og nýjunga. Með samrunareglum er samkeppnisyfirvöldum veitt heimild til að koma í veg fyrir samruna sem líklegir eru að svipta neytendur þessum ávinningi í þeim tilfellum sem fyrirtæki auka við markaðsstyrk sinn í kjölfar samruna. Með aukningu markaðsstyrks er átt við að fyrirtæki öðlist getu til að hækka verð, minnka framleiðslu, úrval og gæði vöru eða þjónustu, draga úr nýsköpun eða hafa með öðrum hætti neikvæð áhrif á samkeppni. Þrátt fyrir mikilvægi samrunareglna er hins vegar ljóst að nauðsynlegt er að fara milliveg við setningu reglna sem heimila samkeppnisyfirvöldum að grípa til íhlutunar gegn samruna fyrirtækja og hafa verður í huga við setningu slíkra reglna að samrunar fyrirtækja geta leitt til hagkvæmni í rekstri með nýtingu þekkingar og framleiðslutækja sem aftur skilar sér í lægra vöruverði.
Á grundvelli matsreglunnar um hið efnislega mat samruna meta samkepnisyfirvöld hvort samruni sé líklegur að svipta neytendur þeim kjörum sem þeir myndu venjulega bera úr býtum á samkeppnismarkaði. Í þessari ritgerð verður fjallað um efnislegt mat samkeppnisyfirvalda á samruna. Annars vegar verður fjallað um þá efnisreglu sem gildir í evrópskum samkeppnisrétti og hins vegar þá efnisreglu sem gildir í íslenskum samkeppnisrétti. Verður í umfjölluninni gerð grein fyrir þeim þáttum sem samkeppnisyfirvöld leggja til grundvallar við mat á því hvort samruni sé líklegur að hindra virka samkeppni. Þá verður sérstaklega gerð grein fyrir þeirri breytingu sem varð á efnisreglu Evrópuréttar með samrunareglugerð Evrópusambandsins, nr. 139/2004 og þeirri breytingu sem varð á efnisreglu íslensks samkeppnisréttar með breytingu á samkeppnislögum nr. 44/2005 með lögum nr. 94/2008. Umfjöllunin er að mestu leyti miðuð við lárétta samruna. Þeir þættir sem þýðingu hafa við mat á samkeppnishamlandi áhrifum lárétta samruna hafa hins vegar vissulega margir jafnframt þýðingu fyrir mat á samkeppnishamlandi áhrifum lóðréttra samruna og samsteypusamruna. Þess ber að geta að umfjöllun um sameiginlega markaðsráðandi stöðu fellur utan gildissviðs þessarar ritgerðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Kristín Ninja Lokaeintak.pdf | 3.25 MB | Lokaður | Heildartexti |