Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5135
Ritgerð þessi fjallar um ungmenni og stéttarfélög. Íslenskur vinnumarkaður hefur lengst af einkennst af miðstýrðri heildarhyggju og nálgun margræðishyggjunnar ræður völdum. Samkvæmt lögum á Íslandi er greiðsluskylda í stéttarfélög og er stéttarfélagsaðild á Íslandi almenn og ein sú mesta í heiminum. Víða í Evrópu hefur fækkað í stéttarfélögum og má helst greina fækkunina meðal ungs fólks. Þrátt fyrir að ekki hafi fækkað eins mikið í stéttarfélögum hér á landi má helst greina fækkun hjá ungu fólki.
Vinna meðal íslenskra ungmenna er algeng og vinna flestöll ungmenni á sumrin og stór hluti þeirra samhliða námi á veturna. Ýmislegt bendir til að oft sé brotið á ungu kynslóðinni á vinnumarkaðnum þegar meðal annars atvinnurekendur nýta sér vanþekkingu ungmennanna. Ætla má að aukin vitund ungs fólks á eðli og tilgangi stéttarfélaga gæti komið í veg fyrir fækkun í þeirra röðum auk þess sem fræðsla um réttindi og skyldur dragi úr brotum gagnvart ungmennum á vinnumarkaði.
Markmið rannsóknarinnar var að skoða viðhorf ungmenna til stéttarfélaga og hvað ungmenni vita um réttindi á vinnumarkaði. Auk þess var skoðað hvernig stéttarfélög standa að fræðslu fyrir ungmenni um starfsemi sína og réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Notast var við megindlega rannsóknaraðferð og skriflegur spurningalisti lagður fyrir 190 nemendur á fyrstu tveimur árum í framhaldsskóla. Ein opin spurning var lögð fyrir þátttakendur í lok spurningalistans og var unnið með hana eins og um eigindleg gögn væri að ræða. Þátttakendur rannsóknarinnar voru valdir af hentugleika og því er ekki hægt að nota niðurstöðurnar til að alhæfa um þýðið en rannsóknin gefur til kynna viðhorf aldurshópsins til stéttarfélaga og þekkingu þeirra á réttindum á vinnumarkaðnum. Einnig voru tekin eigindleg viðtöl við fulltrúa tveggja stórra stéttarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Helstu niðurstöður benda til þess að viðhorf ungmenna til stéttarfélaga sé jákvætt og áhugi um þau sé til staðar þrátt fyrir að þekking ungmennanna sé ekki mikil. Um helmingur þátttakenda töldu sig þekkja vel til réttinda og skyldna en um leið telur hinn helmingurinn sig ekki þekkja vel til réttinda og skyldna sem bendir til að þekkingu er ábótavant. Stéttarfélögin eru virk og standa vel að sinni fræðslu en þrátt fyrir það er fræðsla fyrir aldurshópinn ekki nægileg og er ábótavant. Stéttarfélögin ættu að leggja áherslu á aukna fræðslu/kennslu í samráði við skólanna auk þess sem virkja ætti foreldra/forráðamenn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerðin.pdf | 827.69 kB | Lokaður | Heildartexti |