Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/51570
Á undanförnum árum hefur umræða um leyfisveitingar vatnsaflsvirkjana verið áberandi á Íslandi. Í kjölfar innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum (vatnatilskipunin) með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála hafa vaknað ýmis álitamál í tengslum við vatnsaflsvirkjanir og stjórn vatnamála, einkum þegar kemur að samspili leyfisveitinga og umhverfisverndar.
Markmið ritgerðarinnar er að greina hvaða áhrif vatnatilskipunin hefur á leyfisveitingar vatnsaflsvirkjana og þær skyldur sem hvíla á aðildarríkjum við framkvæmd hennar. Vatnatilskipunin kveður á um að aðildarríki skuli vernda, bæta og endurheimta vatnshlot þannig að þau nái að lágmarki góðu vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi. Tilskipunin felur þó einnig í sér undanþáguheimildir, einkum í 7. mgr. 4. gr. sem gera aðildarríkjum kleift að heimila framkvæmdir á borð við vatnsaflsvirkjanir þrátt fyrir neikvæð áhrif á vatnshlot, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessu fylgir umfangsmikil stjórnsýsla þar sem stjórnvöld þurfa að útbúa reglubundnar vatnaáætlanir, vöktunaráætlanir og aðgerðaáætlanir sem tryggja að ástand vatnshlota sé metið og markmið tilskipunarinnar verði uppfyllt. Á Íslandi hefur aðeins einn dómur Hæstaréttar fallið um þetta álitaefni, í Hrd. 9. júlí 2025 (11/2025). Þar sem dómaframkvæmd hér á landi er takmörkuð verður litið til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins sem hefur haft afgerandi áhrif á þróun réttarins, einkum við túlkun og beitingu undanþáguákvæðis 7. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Ritgerðin fjallar jafnframt um skyldur stjórnvalda við endurskoðun útgefinna leyfa samkvæmt tilskipuninni, þar sem metið er hvort eldri leyfi samrýmist markmiðum tilskipunarinnar. Þá eru ýmis önnur sjónarmið sem hafa þýðingu við framkvæmd vatnatilskipunarinnar, svo sem skilyrða fyrir flokkun manngerðra og mikið breyttra vatnshlota, þátttökuréttar almennings og aðildar að úrlausn mála.
Í ritgerðinni er þannig farið heildstætt yfir þessa þætti og álitaefni sem vakna í tengslum við framkvæmd vatnsaflsvirkjana. Með þessari nálgun er leitast við að varpa ljósi á hvernig stjórnvöld aðildarríkja geti tryggt að leyfisveitingar samræmist markmiðum tilskipunarinnar.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Meistararitgerð RB pdf. lokaskil.pdf | 938,74 kB | Lokaður til...07.10.2030 | Heildartexti | ||
| Háskólabókasafn yfirlýsing um meðferð lokaverkefna sem varðveitt eru hjá Landsbókasafni Íslands.pdf | 4,58 MB | Lokaður | Yfirlýsing |