Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/51575
Concentrations of PFAS in breast milk and blood among Icelandic women
Per- and polyfluorinated alkyl substances, eða PFAS efni eru stór flokkur þrávirkra, manngerðra efna sem hafa mikið verið notuð í iðnaði og í neysluvörum síðan á fimmta áratug síðustu aldar. Efnin safnast
upp í lífverum og umhverfinu og eru mjög stöðug. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt fram á skaðleg áhrif PFAS efna á heilsu manna og hafa sum þeirra verið bönnuð eða notkun þeirra takmörkuð. Vitað er að PFAS efni mælast í sermi almennings og að hluti þeirra skiljist út með móðurmjólk. Ungabörn eru því útsett fyrir efnunum bæði í gegnum fylgju á meðgöngu og með móðurmjólkinni eftir fæðingu.
Markmið þessarar rannsóknar var að mæla styrk 19 mismunandi PFAS efna í blóði og móðurmjólk íslenskra mæðra, kanna í hvaða styrk þau mældust og hvort hægt væri að draga ályktanir um hugsanlegar uppsprettur. Slík rannsókn hefur ekki áður verið framkvæmd hérlendis og leggur því góðan grunn að frekari rannsóknum og vöktun á PFAS efnum í íslensku þýði.
Alls tóku 48 íslenskar konur þátt í rannsókninni sem gáfu blóð- og mjólkursýni ásamt því að svara ítarlegum spurningalista um lífsstíl, mataræði og neysluvenjur. Mælingar fóru fram á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) með LC-MS/MS massagreini. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að PFAS efni mældust í öllum sermissýnunum. Fjögur efni mældust í öllum sýnunum, Perfluorooctanoic acid (PFOA), Perfluorononanoic acid (PFNA), Perfluorohexanesulphonic acid (PFHxS) og Perfluorotridecanoic acid (PFTrDA) og í 94% sýnanna mældist Perfluorooctanesulfonic acid (PFOS) líka. Meðalstyrkur allra samanlagðra efnanna í sermissýnunum var 1,31 ng/mL sem er um 81% lægri styrkur en viðmiðunarmörk Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA), hefur lagt fram til verndar ungum börnum. Aðeins ein breyta reyndist marktæk þegar styrkur efnanna var borinn saman við svör þátttakenda við spurningalistanum og var sú breyta í tengslum við mataræði. Konur sem sögðust vera kjöt og fiskætur reyndust með hærri styrk PFAS efna en þær sem sögðust vegan eða grænmetisætur. Ekki fundust marktæk tengsl milli annarra breyta sem spurt var um við styrk efnanna í sermi. Öll brjóstamjólkursýnin reyndust vera undir greiningarmörkum sem teljast jákvæðar niðurstöður.
Rannsóknin takmarkast við lítinn hóp þátttakenda en niðurstöðurnar veita mikilvæga innsýn og geta lagt grunn að frekari rannsóknum og skipulögðu eftirliti með útsetningu, áhrifum og uppruna PFAS efna í íslensku þýði. Niðurstöðurnar í þessari rannsókn gáfu til kynna að styrkur efnanna var töluvert lægri en mælst hefur í sambærilegum rannsóknum í öðrum Evrópulöndum.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Ritgerð - Sunneva.pdf | 1,03 MB | Lokaður til...08.10.2027 | Heildartexti | ||
| yfirlýsing.pdf | 325,77 kB | Lokaður | Yfirlýsing |