is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5158

Titill: 
  • Markaður með losunarheimildir kolefnis í Evrópu. Tilkoma og framvinda markaðsformsins
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Kolefnismarkaður Evrópu er markaður með losunarheimildir kolefnis. Hann er helsta stjórntæki Evrópuríkja til að uppfylla markmið Kýótó-bókunarinnar á árunum 2008-2012 um 8% samdrátt miðað við losun árs 1990. Evrópusambandsríkin völdu markaðsformið sem sitt helsta vopn gegn mengun, en þjóðir heims geta farið ýmsar leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra skaðlegra efna. Auk markaðar eru skattlagning á mengun og stjórn- og eftirlitskerfi mögulegar leiðir. Í þessari ritgerð eru kostir og gallar þessara þriggja lausna kannaðir. Í orði er niðurstaða skattafyrirkomulags og markaðar sú sama. Báðar leiðir fá fyrirtækin til að innbyrða þau neikvæðu ytri áhrif sem mengunin veldur. Stjórn- og eftirlitskerfi myndar ekki hvata til að draga úr mengun, og er því ekki til þess fallið að leysa vanda sem stafar af neikvæðum ytri áhrifum mengunar. Skattlagning og markaður henta betur, en helsti munur á leiðunum tveimur er að á markaði þurfa yfirvöld ekki að búa yfir jafn miklum upplýsingum um kostnað fyrirtækja við að draga úr mengun. Á skilvirkum markaði gefur verð losunarheimilda til kynna kostnað fyrirtækja við að draga úr mengun.
    Í ritgerðinni er litið á framvindu evrópska markaðarins frá upphafi hans árið 2005. Markaðurinn er á öðru starfstímabili sínu, sem spannar árin 2008-2012. Fyrsta tímabil markaðarins var frá 2005-2007. Vegna offramboðs og vöntunar á bankakerfi urðu losunarheimildir fyrsta starfstímabils verðlausar fyrir lok árs 2007. Mikið verðfall varð á losunarheimildum árið 2006 og svo virðist sem markaður hafi ekki verið skilvirkur fyrir verðfall. Ýmsar ástæður geta legið að baki, t.d. getur verið að bóla hafi myndast á markaðinum. Eftir verðfall á fyrsta tímabili virðist verð hafa endurspeglað betur jaðarkostnað við að draga úr mengun, og markaðurinn þar með skilvirkari. Verð á losunarheimildum annars tímabils hefur verið sveiflukennt, en aldrei misst verðgildi sitt líkt og losunarheimildir fyrsta tímabils. Samdráttur í hagkerfum heimsins á síðastliðnum tveimur árum hefur dregið úr eftirspurn eftir losunarheimildum og aukið framboð þeirra.
    Frá upphafi hefur evrópski markaðurinn stækkað mikið og viðskipti aukist frá ári til árs. Virk verðmyndun bendir til að fyrirtæki líta á losunarheimildir sem kostnaðarlið. Markaðurinn skilar því tilætluðum árangri, sem að láta fyrirtæki innbyrða kostnað við losun mengunar. Rannsóknir benda til að samdráttur á losun koltvíoxíðs á árunum 2005-2007 hafi verið 3-5%. Ríki utan Evrópu líta nú til markaðsformsins sem álitlegan kost gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

Samþykkt: 
  • 11.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5158


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
markadur med losunarheimildir kolefnis.pdf1.06 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna