Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/51607
Kant umorðar hið skilyrðislausa skylduboð á fjóra máta þrátt fyrir að hafa sagt að það sé eitt og aðeins eitt. Ástæðu þessa tel ég vera að Kant sé að gera betur grein fyrir því hvernig skuli hugsa um eða beita skylduboðinu þegar horft er á heiminn útfrá frumspeki hans. Frumspekin deilir heiminum í fjóra parta og þar tel ég að ástæða fyrir mismunandi framsetningum skylduboðsins séu komnar. Heimurinn er einn líkt og skylduboðið, þó að hægt sé að horfa á hann á mismunandi vegu. Ég máta umorðanirnar, eina og eina í einu, við frumspeki Kants og rökstyð að samhljómur sé á milli ákveðinna hluta heimsins og ákveðinna framsetninga á skylduboðinu. Framsetning skylduboðsins með tilliti til náttúrulögmálsins fellur að því sem Kant kallar heim fyrirbæranna, sá heimur er grunnur mögulegrar reynslu. Framsetning skylduboðsins með tilliti til manneðlisins sem markmiðs fellur að hugmyndum Kants um hvernig manneskjan skynjar sjálfan sig í heimi fyrirbæranna. Þriðja umorðunin með tilliti til sjálfræðsins á við um manneskjuna eins og hún er handan allrar reynslu, sem skynsemisvera. Fjórða umorðunin með tilliti til ríkis markmiða á því næst við um manneskjurnar sem skilningsverur og hvernig þær eiga samskipti (ef svo má að orði komast) handan reynslu. Hið skilyrðislausa skylduboð, sem umorðanirnar eru leiddar af, á við um heiminn eins og hann er í raun og veru, áður en honum er skipt upp til auðveldari skilnings samkvæmt frumspeki Kants. Umorðanir Kants á skylduboðinu eru því engin tilviljun heldur gerðar vegna þess að frumspeki siðlegrar breytni og frumspeki náttúrunnar tilheyra því sviði hreinnar heimspeki sem skilningurinn getur einbeitt sér að.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Petur_ba_2007.pdf | 367,1 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| peturo.BA.yfirlysing-editable.pdf | 1,49 MB | Lokaður | Yfirlýsing |