Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/51635
Ágrip
Bakgrunnur: Mikið álag getur fylgt því að eiga ástvin í líknar- og lífslokameðferð og getur góð fjölskylduhjúkrun stutt við fjölskylduna á erfiðum tímum. Í fjölskylduhjúkrun er lögð áhersla á að veikindi varði ekki aðeins einstaklinginn heldur alla fjölskylduna. Fyrri rannsóknir sýna að það sem skiptir hvað mestu máli fyrir gæði lífslokameðferðar eru góð samskipti við heilbrigðisstarfsfólkið og stuðningur í kringum andlátið. Sorgin er eðlilegt viðbragð við missi en getur þróast yfir í óæskilegan farveg og þróa sumir með sér einkenni langvarandi vanlíðunar. Slíkt ástand getur bent til þess að vísa þurfi þeim sem syrgir til fagaðila til að vinna úr sorginni.
Tilgangur og markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna reynslu og upplifun aðstandenda af fjölskylduhjúkrun í líknar- og lífslokameðferð á bráðalegudeild. Sérstök áhersla var lögð á að dýpka skilning á því hvaða þættir það eru sem aðstandendur telja mikilvæga þegar annast er um ástvin þeirra á lokastigi lífsins.
Aðferð: Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn þar sem valdir voru 13 þátttakendur með tilgangsúrtaki. Allir þátttakendurnir voru aðstandendur einstaklings í lífslokameðferð á bráðalegudeild. Gagna var aflað með hálfstöðluðum viðtalsramma sem innihélt opnar spurningar. Gögnin voru greind með eigindlegri innihaldsgreiningu, þar sem stuðst var við aðleiðslu.
Niðurstöður: Við greiningu gagna komu í ljós þrjú meginþemu: 1) samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, 2) áhrif umhverfis á upplifun og líðan aðstandenda og 3) aðlögun að missi. Hvert þessara meginþema samanstóð af nokkrum undirþemum og endurspegla þá þætti sem skipta aðstandendur máli í lífslokameðferð ástvina þeirra.
Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika mikilvægi fjölskyldu- hjúkrunar í lífslokameðferð, þar sem góð samskipti, hlýlegt umhverfi og stuðningur við aðstandendur skipta sköpum. Til að mæta þörfum fjölskyldna á þessum viðkvæma tíma er brýnt að heilbrigðiskerfið bjóði upp á markvissan stuðning, virka þátttöku og eftirfylgd sem tekur mið af fjölskyldunni í heild.
Lykilorð: Fjölskylduhjúkrun, samskipti, lífslokameðferð, aðstandendur, bráðalegudeild, reynsla, þemagreining, eigindleg.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Fjölskylduhjúkrun í líknar- og lífslokameðferð á bráðalegudeild- 29.10.25 .pdf | 1,43 MB | Lokaður til...31.10.2026 | Heildartexti |