Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5193
Samhliða auknum vinsældum netsins hefur átt sér stað mikil þróun á svokölluðum samfélagsmiðlum (e. Social Media). Notkun samfélagsmiðla á borð við blogg og Facebook, hafa notið vaxandi vinsælda og er Ísland þar engin undantekning. Með samfélagsmiðlunum gefast fyrirtækjum kostur á að eiga samskipti við viðskiptavini sína með skilvirkari og áhrifaríkari hætti en áður.
Rannsóknir hafa sýnt að samfélagsmiðlar eru hentugt verkfæri í markaðssamskiptum fyrirtækja þar sem þau gera fyrirtækjum kleift að styrkja og þróa samband sitt við núverandi viðskiptavini með betri hætti sem leiðir til bættrar ímyndar.
Rannsóknin beindist að íslenskum fyrirtækjum sem nýttu sér samfélagsmiðla í markaðsstarfi sínu. Tekin voru viðtöl við fulltrúa átta fyrirtækja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig fyrirtæki, sem nýta sér samfélagsmiðla, væru að nota þá til markaðsfærslu. Kostir og gallar við notkun samfélagsmiðla samanborið við ljósvaka- og prentmiðla eru skoðaðir og kannað hvort fyrirtækjum standi ógn af samfélagsmiðlum eða hvort í þeim felist ný tækifæri.
Helsta niðurstaðan úr viðtölunum er að markmiðið með notkun samfélagsmiðla til markaðsfærslu er að skapa persónulegan vettvang til samræðna við viðskiptavini. Vettvang þar sem notkunin snýst um að upplýsa og fræða viðskiptavini um vörur og þjónustu fyrirtækisins. Facebook er sá samfélagsmiðill sem helst er notaður af fyrirtækjum. Að mati viðmælenda eru samfélagsmiðlar ekki staðgenglar annarra ljósvaka- og prentmiðla.
Helstu takmarkanir þessarar rannsóknar er vöntun á fulltrúum frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum til að greina sérstaka tilhneigingu í notkun á samfélagsmiðlum eftir stærð fyrirtækja. Rannsóknin takmarkast einnig við rannsóknaraðferðina þar sem hún veitir aðeins innsýn í viðfangsefnið en hefur ekki alhæfingargildi. Þrátt fyrir takmarkanir gefur rannsóknin góðar upplýsingar um það hvernig íslensk fyrirtæki, sem á annað borð nota samfélagsmiðla, nota þá í sinni markaðsfærslu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hermann_Grétarsson_masters_ritgerð.pdf | 394,38 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |