Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5243
Efnahagslægðin sem hófst haustið 2008 hafði gríðarleg áhrif á Ísland og enn sér ekki fyrir endann á henni. Ísland hefur í gegnum tíðina fari ekki varhluta af efnahagslægðum, þær eru iðulega dýpri og áhrifameiri en annars staðar á Vesturlöndum. Í gegnum aldirnar gengu Íslendingar í gegnum kreppur af völdum náttúruhamfara, veðurfars eða drepsótta. Afleiðingarnar voru oftast mikið mannfall og hungursneyð.
Frá 1870 hafa samdráttarskeið skekið landið á um 20 ára fresti. Lægðirnar eru misdjúpar en í stuttu máli eru fyrri heimsstyrjöldin og núverandi efnahagskreppa hvað alvarlegastar með tilliti til hagvaxtar. Atvinnuleysi varð gríðarlegt hér á landi í Kreppunni miklu á 4. áratug síðustu aldar og er jafnvel enn meira í núverandi kreppu. Þegar þessi orð eru skrifuð er um 9,3% vinnuaflsins án atvinnu.
Núverandi efnahagskreppa er afleiðing gífurlegrar lánatöku og útþenslu bankakerfisins. Eftirlitsaðilar, ráðamenn og yfirmenn bankanna brugðust skyldum sínum og eftir situr almenningur í mikilli skuldasúpu. Icesave-málið er ekki enn leyst en það er algjör forsenda fyrir því að erlent lánshæfismat okkar batni.
Ýmis tækifæri leynast þó í núverandi stöðu. Útflutningur blómstrar nú sem aldrei fyrr í kjölfar lágs gengis krónu. Ísland hentar einkar vel til virkjunar á fallvötnum og því væri upplagt að hefja útflutning á raforku. Ógnirnar leynast þó einnig í núverandi ástandi. Nú þegar hefur fjöldi fólks flutt af landi brott vegna bágs atvinnuástands. Íslendingar eru ekki það margir að landið megi við því að mikill fjöldi flytji héðan, sérstaklega ef fólkið er ungt menntafólk.
Niðurstaðan er sú að ástandið er mjög slæmt og lægðin dýpri en áður þekkist. Ljósir punktar leynast þó í því að Ísland getur náð sér aftur á nokkrum árum. Við höfum enn mannauðinn og menntunina. Dugnaðurinn sem býr í fólkinu mun svo reynast dýrmætur.
Fyrir þessa ritgerð voru gerðar ýmsar rannsóknir á hagtölum. Helst voru vefir Seðlabanka Íslands og Hagstofunnar notaðir, auk erlendra vefsíðna. Bókin Hagskinna reyndist líka drjúg.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
bs.pdf | 633.01 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |