Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5251
Fjarskiptamarkaðurinn á Íslandi veltir árlega rúmlega 42 milljörðum króna, þar af er velta á farsímamarkaði tæpir 17 milljarðar króna. Þjónustan snertir líf allra landsmanna bæði í leik og starfi sem ásamt því að fjarskiptakostnaður er stór útgjaldaliður heimila og fyrirtækja gerir markaðinn að áhugaverðu rannsóknarefni.
Hér verður tekinn til rannsóknar afmarkaður hluti fjarskitpamarkaðarins, þ.e. farsímamarkaðurinn. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort opin samkeppni sé það form sem heppilegast er fyrir hinn íslenska örmarkað og þá út frá sjónarmiði neytenda. Hefur samkeppnin skilað neytendum lægra verði og betri eða meiri þjónustu?
Rannsóknin var framkvæmd í þremur fösum, fasi eitt byggir á útreikningum líkana sem sýna þróun tekna fjarskiptafyrirtækjanna af meðal farsímanotanda og þróun raun mínútuverðs í bæði farsíma- og talsímanetinu auk þess eru reiknaðar fjölmargar stærðir sem sýna þróun notkunar bæði varðandi tal og gagnaflutning í farsímanetinu og varpar ljósi á breytt notkunarmynstur hefðbundins farsímanotanda. Í fasa eitt er einnig farið yfir helstu ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi verð og verðíhlutanir til að varpa ljósi á hvort þær hafi áhrif á markaðinn og þá sérstaklega verð til neytenda. Í fasa tvö var framkvæmd könnun meðal lykilstarfsmanna fjarskiptafyrirtækjanna í formi rafræns spurningalista sem sendur var með tölvupósti. Fasi þrjú byggir á einstaklingsviðtölum við sérfræðinga hjá fjarskiptafyrirtækjum í öllum lögum fjarskiptanetsins, þ.e. grunnetsfyrirtækja, fjarskiptafyrirtækja sem veita heildræna þjónustu og farsímafyrirtækja.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að raunverð til neytenda í farsímanetinu hefur lækkað, raunverð í fastlínunetinu hefur hækkað og notkun aukist. Þannig fær nú meðal notandinn fleiri mínútur fyrir sama eða svipað verð og áður. Tekjur farsímafyrirtækjanna af hverjum viðskiptavin hafa lækkað, þ.e. tekjur af farsímarekstri hafa heldur lækkað en notkun aukist. Af því má ráða að virk samkeppni sem nú ríkir á markaðnum hafi skilað sér í auknu magni til neytenda þrátt fyrir að beinar verðlækkanir hafi ekki komið fram á verðskrám fjarskitpafyrirtækjanna. Niðurstöður spruningalista styðja þá niðurstöðu að innkoma nýs aðila á markað er líklegri til að hafa áhrif á verð og framboð þjónustu en inngrip og ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar, PFS fremur en. Niðurstöður viðtala styðja ennfremur niðurstöður útreikninga og viðtala varðandi verð til neytenda og hvaða þættir hafi þar mest áhrif. Í viðtölunum endurspeglaðist hversu flókið ferli kostnaðargreining er, en jafnframt nauðsynleg, fram kom gagnrýni á aðferðir og niðurstöður sem endurspeglast í fræðikenningum um stöðu aðila á markaði og viðhorf til aðferðarinnar.
Niðurstöðum rannsóknarinnar sýna að á Íslandi ríkir nú virk og lifandi samkeppni sem virðist vera að skila sér til neytenda þó ekki í formi verðlækkana. Innkoma nýrra aðila á markaðinn hvetur til verðsamkeppni og vöruþróunar en hvort sú staða sem nú ríkir á markaðnum er varanleg eða lífvænleg er mjög erfitt að segja til um á þessum tímapunkti þar sem svo skammt er liðið síðan tveir nýjustu aðilarnir bættust í hópinn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hvaða samkeppnisform er hagkvæmast fyrir fjarskiptamarkað á örmarkaði eins og á Íslandi.pdf | 1.17 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |