Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5270
Tilgangur þessarar rannsóknar var að greina forystuhæfni út frá lífshlaupi Vigdísar Finnbogadóttur og viðtölum við vini hennar og samstarfsmenn. Kenningar um ósvikna forystu eru lagðar til grundvallar og röð hálfopinna viðtala við Vigdísi og nokkra af samferðamönnum hennar. Einnig var ævisaga Vigdísar Finnbogadóttur, Vigdís, kona verður forseti, lögð til grundvallar.
Kenningar um ósvikna forystu eru enn í mótun og ekki hefur náðst samstaða um eina algilda skilgreiningu. Þó má finna nokkra sameiginlega þætti hjá fræðimönnum þar sem ósvikin forysta er skilgreind sem opið þroskaferli sem hefst með því hvernig einstaklingur túlkar lífsreynslu sína og nýtir sér til áframhaldandi þroska. Ósviknir leiðtogar búa yfir jákvæðum sálfræðilegum hæfileikum eins og bjartsýni og sjálfstrausti sem skila sér í aukinni sjálfsvitund og jákvæðu atferli. Ósviknir leiðtogar eru knúnir áfram af djúpum skilningi á einstaklingseðli sínu, þeir þekkja eigin styrkleika, veikleika og lífsgildi og bregðast við samkvæmt því. Þeir ávinna sér virðingu og traust fylgjenda, vinna að jákvæðum ósviknum tengslum við aðra og hugsun þeirra, orðræða og atferli er alltaf áreiðanlegt, ekki aðeins innan skipulagsheildar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að lífshlaup, atferli og viðhorf Vigdísar falli vel að kenningum um ósvikna forystu og hún sé gott dæmi um ósvikinn leiðtoga. Lífsferill hennar ber vitni um stöðuga endurskoðun og lífsreynsluna hefur hún nýtt sér til áframhaldandi þroska. Hún hefur sterka sjálfsvitund og er þeirra skoðunar að góðum leiðtoga sé nauðsynlegt að þekkja sjálfan sig, vita fyrir hvað hann stendur og hvað hann getur. Persónulegur vöxtur hennar heldur áfram að dafna fram á ævikvöld og hún gefur sig í verkefni í þágu þjóðarinnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
osvikinn_leidtogi_RH_vidskiptafrædi.pdf | 461,64 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |