is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5287

Titill: 
 • Smásjárskoðun blóðsýna nýbura. Forspárgildi fyrir klínískt greinda blóðsýkingu nýbura og samræmi í mati á forstigum daufkyrninga innan Blóðmeinafræðideildar LSH
Námsstig: 
 • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
 • Aðal markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort smásjárskoðun blóðsýna nýbura segði til um mögulega blóðsýkingu hjá þeim. Athugað var hversu áreiðanleg smásjárskoðun sýnanna er með því að skoða niðurstöður þriggja lífeindafræðinga á LSH, m.a. til að sjá hvort nauðsynlegt sé að smásjárskoða þau utan dagvinnutíma. Þá voru niðurstöður CRP mælinga hjá nýburunum ásamt niðurstöðum úr Sysmex blóðhagstækinu skráðar og athugað hvort eitthvað af þeim gildum myndi hjálpa við greiningu á „sepsis syndrome“.
  Í rannsókninni voru notuð 50 blóðstrokssýni. Stuðst var við nafnalista frá Sýklafræðideild LSH um nýbura sem höfðu verið teknar blóðræktanir af á ákveðnu áður skilgreindu tímabili. Þau 50 sýni sem voru valin voru með jákvæða blóðræktun, neikvæða blóðræktun („sepsis syndrome“) og svo sýni frá heilbrigðum nýburum til samanburðar. Tveir reyndir lífeindafræðingar ásamt nema skoðuðu þessi 50 sýni bæði í smásjá og í Cellavision án vitneskju um ástæðu blóðtökunnar eða niðurstöður hvors annars. Sérstaklega var horft á vinstri hneigð, toxískar granúlur, vacoulur, og Döhle korn. Tölfræðilegur samanburður var síðan gerður á samræmi mats á hverju blóðstroki meðal lífeindafræðinganna og hvort smásjárskoðunin segði eitthvað til um mögulega blóðsýkingu í nýburum. Einnig voru fyrri svör úr rannsóknarkerfi LSH fengin og borin saman við smásjárskoðunina. Niðurstöður úr Sysmex blóðhagsmælingunum og CRP gildi voru skráð og athugað hvort það hjálpaði til við greininguna. Þá var kannað hversu nákvæm smásjárskoðunin var og hversu mikill breytileiki væri á milli lífeindafræðingana í greiningu á stöfum. Næmi, sértæki, jákvætt og neikvætt forspárgildi á milli vinstri hneigðar og toxískra breytinga var einnig athugað.
  Helstu niðurstöður þessarar rannsóknar voru þær að greining á forstigum daufkyrninga er mjög mismunandi eftir lífeindafræðingum (inter-observer variability). Hins vegar var samræmi í talningu lífeindafræðinganna með öðrum tveimur mismunandi aðferðum (Cellavision og smásjá) gott (intra-observer variability). Samræmi er í talningu lífeindafræðinga og þegar Sysmex tækið er notað til að telja heildarfjölda daufkyrninga, sem segir til um góða aðgreiningu daufkyrninga frá öðrum hvítum blóðkornum. CRP gildi, auk talningar á heildarfjölda daufkyrninga, eitilfruma og einkyrninga úr Sysmex tækinu hjálpa lítið sem ekkert til við greiningu á mögulegri blóðsýkingu, þó svo að fjöldi daufkyrninga kæmist næst því að greina þar á milli. Heildarfjöldi hvítra blóðkorna, blóðrauðamagn (hemóglóbín) og blóðflögutalning úr Sysmex tækinu hjálpar heldur ekki til við þessa greiningu. I:T og I:M stuðlar samkvæmt skilgreiningu Rodwell og Manroe hafa hvorki gott næmi né góða sértæki, og ekki er hægt að nota jákvætt eða neikvætt forspárgildi til að segja til um mögulega blóðsýkingu hjá nýburunum.
  Rannsóknin leiddi í ljós að smásjárskoðun hjálpaði ekki til við greiningu á mögulegri blóðsýkingu eða „sepsis syndrome“ hjá nýburum þar sem allt of mikill munur var á talningu forstiga daufkyrninga. Þó svo að ómarktækur munur sé á deilitalningu með tveimur mismunandi aðferðum hjá hverjum lífeindafræðing fyrir sig (intra-observer variability) er munurinn á milli þeirra (inter-observer variability) óásættanlega mikill. Má því álykta að smásjárskoðun blóðstroka utan dagvinnutíma þegar misreyndir lífeindafræðingar sjá um skoðunina sé ekki hjálpleg við greiningu blóðsýkinga. Hins vegar er ljóst að setja þarf skýrari og markvissari reglur um mat á forstigum daufkyrninga á Blóðmeinafræðideild LSH.

Samþykkt: 
 • 15.5.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/5287


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Smásjárskoðun blóðsýna nýbura- Forspárgildi fyrir klínískt greinda blóðsýking nýbura og samræmi í mati á forstigum daufkyrninga innan Blóðmeinafræðideildar LSH.pdf656.43 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna