Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5342
Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða hvort að stefna Mílu sem birtist í Áttavita fyrirtækisins hafi verið innleidd á árangursríkan hátt. Einnig er skoðað hvort að uppruni fyrirtækisins hafi haft áhrif á framgang stefnunnar.
Rannsóknin fór fram með tíu opnum viðtölum, tekin voru fimm viðtöl við stjórnendur og fimm viðtöl við starfsmenn. Tilgangurinn með skiptingu viðmælenda var að varpa ljósi á sjónarhorn og upplifun stjórnenda annars vegar og starfsmanna hins vegar. Þrír af fimm stjórnendum voru yfirstjórnendur og tveir millistjórnendur.
Helstu niðurstöður voru þær að uppruni fyrirtækisins sem ríkisfyrirtækis ásamt því að Míla hafi áður verið deild innan Símans hefur haft neikvæð áhrif á framgang stefnunnar. Stór hluti starfsfólks Mílu hefur áratuga reynslu að baki í sínum störfum, breytingar í starfsháttum og vinnubrögðum hafa ekki verið tíðar í gegnum árin. Almennt vantar upp á aðlögunarhæfni þessa hóps ásamt viljanum til að takast á við breytingar. Aðskilnaður Símans og Mílu sem fram fór árið 2007 virðist ekki hafa náð fram að ganga eins og væntingar stóðu til. Sterk tengsl eru ennþá á milli starfsfólks fyrirtækjanna og eru þessi tengsl að vinna á móti ferlum og vinnubrögðum sem voru innleidd við aðskilnaðinn.
Niðurstöður benda einnig til þess að innleiðing stefnu Mílu hafi ekki verið árangursrík. Hvorki stjórnendur né starfsmenn virtust hafa nægilega tiltrú eða úthald til að fylgja eftir innleiðingu stefnunnar. Hlutverk stjórnenda var ekki skilgreint í innleiðingunni og því misfórst að miðla stefnunni áfram til starfsmanna. Hin daglegu verkefni tóku yfirhöndina ásamt verkefnum sem tengdust útvistun fyrirtækisins. Þegar Míla var stofnuð komu saman ólíkir hópar fólks með mismunandi bakgrunn, viðhorf, gildi og sýn á fyrirtækið og verkefnin. Erfitt hefur reynst að fá þessa hópa til að vinna saman að sameiginlegu markmiði tengdri framtíðarsýn. Sú fyrirtækjamenning sem myndast hefur í fyrirtækinu er að hafa hindrandi áhrif á framgang stefnunnar.
Að lokum má nefna að ekki hefur verið fylgst með framgangi innleiðingarinnar með árangursmælikvörðum. Mikilvægt er að geta tekið stöðuna hverju sinni á innleiðingunni með því að bera saman framgang við mælikvarða tengdum markmiðum framtíðarsýnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaeintak.pdf | 786,91 kB | Lokaður | Heildartexti |