is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5349

Titill: 
 • Faraldsfræði hemólýtískra streptókokka af flokki B á Íslandi
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Streptókokkum af flokki B (Streptococcus agalactiae, group B streptococcus, GBS) var fyrst lýst í kringum 1900 sem sýkingarvaldi í júgurbólgu hjá kúm. Um 1970 var GBS orðinn einn aðalsýkingavaldurinn í ífarandi sýkingum hjá nýburum, snemmkomnum (0-6 daga) og síðkomnum (7-90 daga) og síðustu ár hefur tíðni ífarandi sýkinga hjá fullorðnum aukist. GBS er hluti af eðlilegri þarmaflóru og rannsóknir sýna að allt að 40% kvenna bera bakteríuna í kynfærum eða endaþarmi. Hægt er að flokka GBS í 10 mismunandi hjúpgerðir eftir gerð fjölsykra í hjúp. Fáar faraldsfræðirannsóknir á GBS hafa verið gerðar hér, en mikilvægt er að þekkja algengi hjúpgerða þar sem bóluefni sem eru í þróun byggja á hjúpgerðum.
  Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka faraldsfræði GBS á Íslandi, einkum í ífarandi sýkingum, en einnig í öðrum sýkingum, hjá konum á meðgöngu og í kúamjólk.
  Upplýsingar um allar ífarandi sýkingar á landinu frá árinu 1976-2009, 238 tilvik, voru unnar úr gögnum Sýklafræðideildar Landspítalans, tiltækir stofnar í sýnasafni deildarinnar voru 196. Öllum GBS úr innsendum sýnum 16.apríl 2008-15.apríl 2009 var safnað, 1033. Á sama tímabili var GBS safnað úr mjólkurtankasýnum frá Rannsóknastofu mjólkuriðnaðarins, 24. Notað var GBS stofnasafn sem til var frá konum á meðgöngu,sem safnað var 1994-1997, 158. Allir tiltækir stofnar voru hjúpgreindir, en einnig gerð stofngreining með PFGE og næmispróf á öllum stofnum úr ífarandi sýkingum og mjólk. Fyrirliggjandi voru niðurstöður úr næmisprófum frá helmingi innsendra sýna.
  Fjöldi snemmkominna sýkinga árin 1990-1999 var 0,6 á hverja 1000 fæðingar en 0,5 árin 2000-2009 (p 0,48). Síðkomnar sýkingar voru 0,2 á hverjar 1000 fæðingar 1990-1999 og 0,5 2000-2009 (p 0,012). Árlegt nýgengi ífarandi GBS sýkinga hjá fullorðnum jókst úr 1,8 sýkingum á 100.000 íbúa árin 1990-1999 í 3,4 sýkingar á 100.000 íbúa 2000-2009 (p 0,002). Algengasta hjúpgerð GBS í ífarandi sýkingum hjá nýburum er hjúpgerð III, í 38% tilvika í snemmkomnum og 62% í síðkomnum sýkingum, en hjá fullorðnum er skipting hjúpgerða nokkuð jöfn milli Ia, III og V, um 20%. Síðustu árin hefur orðið aukning á hjúpgerð V á Íslandi (p 0,04). Hjúpgerð III er algeng í kynfæra- og þvagsýnum, en sjaldgæf í öðrum sýnum. Algengasta hjúpgerðin í kúamjólk er hjúpgerð V, en hjúpgerðir III, Ib fundust einnig. Hjúpgerð V inniheldur fáa klóna og virðist útbreiddasti klónninn ekkert hafa breyst síðustu 16 árin og finnst hann einnig í kúamjólk. Allir stofnarnir eru næmir fyrir pensillíni, en ónæmi fyrir eryþromysíni er 4% og fyrir klindamysíni 5% í ífarandi stofnum. Ónæmi í innsendum sýnum var 21% fyrir eryþromysíni og 19% fyrir klindamysíni og var það mest í stofnum af hjúpgerð V. Um það bil 13% stofna sem ræktuðust úr kúamjólk voru ónæmir fyrir báðum lyfjum. Merki sáust um mögulegar spítalasýkingar.
  Tíðni síðkominna sýkinga á Íslandi hefur hækkað síðustu ár og hefur því ekki verið lýst annars staðar. Ífarandi sýkingum hefur fjölgað hjá fullorðnum og er það í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna. Sýklalyfjaónæmi er meira í stofnum frá innsendum sýnum en ífarandi. Hlutfall hjúpgerðar Ib er hærra í ífarandi sýkingum í öllum aldurshópum hér á landi en annars staðar. Niðurstöður stofngreiningar benda til að sömu stofnar sýki menn og kýr á Íslandi. Ef notað væri þrígilt bóluefni gegn Ia, III og V hjá konum á meðgöngu mætti mögulega koma í veg fyrir um 74% snemmkominna og 88% síðkominna sýkinga hér á landi, en meðan bólusetning er ekki hafin er vitneskja um sýklalyfjanæmi forsenda betri og markvissari meðferðar og forvarna.

Styrktaraðili: 
 • Statens Serum Institute
  Vísindasjóður Landspítalans
  Vísinda- og fræðslusjóður Félags lífeindafræðinga
Samþykkt: 
 • 20.5.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/5349


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistaraverk_fra_erlu.pdf6.51 MBLokaðurHeildartextiPDF