is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5354

Titill: 
  • Breiðvirkir β-laktamasar í Gram neikvæðum stöfum af ætt Enterobacteriaceae: Arfgerðir og áhrif á sýklalyfjanæmi
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ónæmi fyrir breiðvirkum β-laktam lyfjum hjá bakteríum af ætt Enterobacteriaceae hefur farið hratt vaxandi í heiminum undanfarna tvo áratugi. Algengasta orsökin er framleiðsla breiðvirkra β-laktamasa (ESBL) í bakteríunum. Engar upplýsingar liggja fyrir um sameindafaraldsfræði ESBL á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna ESBL-tengt sýklalyfjaónæmi og arfgerðir ESBL hjá nokkrum meðlimum Enterobacteriaceae, sem hafa greinst á Sýklafræðideild Landspítala. Rannsóknin mun leggja grunn að uppbyggingu á tæknilegri færni og fræðilegri þekkingu á greiningu og faraldsfræði breiðvirkra β-laktamasa hér á landi.
    Aðferðir. ESBL-tengt sýklalyfjanónæmi var kannað hjá Escherichia coli og Klebsiella spp. sem greindust á Sýklafræðideild á árunum 2007 – 2009. Fyrir arfgerðagreiningar á ESBL genum voru notaðar 59 bakteríur sem höfðu sýnt merki um ESBL myndun í fyrri rannsókn höfundar á næmisprófum fyrir Enterobacteriaceae ásamt 18 Klebsiella spp. sem greindust í faraldri ESBL myndandi baktería á endurhæfingardeild Landspítala. Leitað var að algengustu arfgerðunum, þ.e. blaTEM, blaSHV og blaCTX-M með PCR, og mögnunarafurðir raðgreindar. Að auki var gerð stofngreining á faraldursbakteríunum með skerðiensímsklippingu og PFGE.
    Niðurstöður. Könnun á sýklalyfjanæmi sýndi að af 19.952 E. coli og Klebsiella spp. sem greindust á Sýklafræðideild Landspítala á tímabilinu 2007 – júlí 2009 reyndust 411 (2,1%) jákvæð ESBL staðfestingarpróf. ESBL myndandi bakteríur voru mun oftar ónæmar fyrir cíprófloxacíni, gentamicíni og trímethóprím - súlfamethoxazóli en þær sem ekki mynduðu ESBL. CTX-M gerð af ESBL fannst í rúmum helmingi bakteríanna og SHV í örfáum. Nær allar K. pneumoniae úr faraldrinum mynduðu CTX-M-15, og stofngreining benti til að um 80% faraldursbakteríanna væru náskyldar.
    Ályktun. Faraldsfræði ESBL myndandi baktería á Íslandi virðist líkjast því sem lýst hefur verið í erlendum rannsóknum. Tíðni ESBL myndunar er ennþá lág, eins og í nágrannalöndum okkar, og ESBL myndun fylgir oft ónæmi fyrir öðrum sýklalyfjaflokkum. Fyrstu vísbendingar um arfgerðir ESBL í E. coli og Klebsiella spp. gefa til kynna að CTX-M sé algengasta gerðin hér eins og víðast hvar í heiminum. Þá leiddi rannsóknin í ljós fyrsta spítalafaraldur af völdum CTX-M-15 myndandi K. pneumoniae á Íslandi, en slíkum faröldrum hefur verið lýst annarsstaðar.

Samþykkt: 
  • 21.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5354


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MScEygló.pdf852.84 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna