Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5387
Á meðgöngu geta komið upp sjúkdómar eða vandamál eins og háþrýstingur, sykursýki, fyrirsæt fylgja eða yfirvofandi fyrirburafæðing. Konur geta þurft að hætta vinnu og jafnvel að leggjast inn á sjúkrahús til lengri eða skemmri tíma. Innlögn á sjúkrahús vegna veikinda á meðgöngu getur valdið kvíða og streitu hjá konum og fjölskyldum þeirra.
Tilgangur þessarar fræðilegu úttektar var að skoða gagnreynda þekkingu á gildi heimaþjónustu fyrir konur í áhættumeðgöngu. Jafnframt var leitað upplýsinga um ástæður innlagna á meðgöngudeild og ástæður heimsókna kvenna á áhættumeðgöngudeild LSH. Erlendis hefur verið sýnt fram á að heimaþjónusta vegna veikinda á meðgöngu er gagnleg og örugg fyrir konur en mismunandi er eftir löndum hverjir sinna heimaþjónustunni. Jafnframt er kostnaður heimaþjónustu svipaður eða lægri en þegar um sjúkrahúsvist er að ræða. Engar íslenskar rannsóknir hafa birst um þetta efni.
Samkvæmt rannsóknum er aðalávinningur heimaþjónustu sá að innlögnum á sjúkrahús fækkar. Líðan og upplifun kvennanna sem fá heimaþjónustu er betri en þeirra sem dvöldu á sjúkrahúsi. Ekki er útkoma nýbura síðri og virðist ekki ráðast af því hvort um sjúkrahúsdvöl sé að ræða. Í þeim rannsóknum sem fjölluðu um mun á innlögnum á meðgöngudeild á tíu ára tímabili í Kanada og Bandaríkjunum var markviss fækkun innlagna á meðgöngu og var það tengt við þróun á göngudeildar- og heimaþjónustu. Þó komu konur sem lágu á sjúkrahúsi betur út hvað varðar andlega líðan eftir fæðinguna sem tengt var við þann stuðning sem þær fengu frá starfsfólki á meðgöngunni. Rúmlega er oft á tíðum ráðlögð sem meðferð vegna veikinda á meðgöngu þrátt fyrir að gagnsemi hennar sé umdeild. Skoða ætti þann möguleika að þróa þjónustu ljósmæðra á meðgöngu fyrir konur í áhættumeðgöngu í völdum tilvikum hér á landi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Heimaþjónusta á meðgöngu pdt.pdf | 453,45 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |