Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5391
Offita er vaxandi vandamál hjá börnum í nútíma samfélagi, en offita og heilbrigðisvandi henni tengd meðal fullorðinna er eitt stærsta heilbrigðisvandamál 21. aldar. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun, en tíðni offitu meðal barna á skólaaldri hefur fimmfaldast frá miðri síðustu öld og er nú líklega um 5% og jafnvel hærri í sumum hópum. Megintilgangur þessarar fræðilegu úttektar er að varpa ljósi á stöðu þekkingar um tengsl milli næringar og vaxtar ungbarna og þróunar á ofþyngd eða offitu í barnæsku og skoða í ljósi opinberra ráðlegginga um næringu ungbarna. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að brjóstamjólk er almennt talin verndandi þáttur gegn offitu en mikil próteinneysla getur aukið líkur á offitu.
Þá hafa veik, jákvæð tengsl fundist milli fæðingarþyngdar og líkamsþyngdarstuðuls (LÞS)
síðar á ævinni í rannsóknum á fólki sem fæddist fyrir miðbik síðustu aldar. Neikvæð tengsl hafa hins vegar fundist milli fæðingarþyngdar og búkfitu eða óæskilegrar fitusöfnunar. Minna er eðlilega vitað um áhrif af hárri fæðingarþyngd nýbura í dag og tengsl við þyngd og fitusöfnun síðar á ævinni. Hröð þyngdaraukning ungbarna er talin auka líkur á ofþyngd eða offitu.
Til að greina þann hóp sem huga þarf sérstaklega að í ungbarnaeftirliti eru í ritgerðinni einnig skoðaðir áhrifaþættir þess hvaða næringu barnið fær. Ráðleggingar um næringu eru í sífelldri endurskoðun og starfa sérfræðingahópar við það með mati á staðbundnum og alþjóðlegum vísindarannsóknum. Heimilda fyrir ritgerðina var leitað í gagnasöfnunum PubMed, Scopus og Ovid.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni í sniðmáti loka.pdf | 271,1 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |