Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5411
Markmið rannsókna var að skoða próffræðilega eiginleika íslensku útgáfu Depression Anxiety Stress Scales (DASS; Lovibond og Lovibond, 1995b). DASS er sjálfsmatskvarði fyrir þunglyndi, kvíða og streitu, byggður á 42 fullyrðingum. Í rannsókn 1 var DASS-kvarðinn lagður fyrir nema við Háskóla Íslands (n = 373) ásamt öðrum sjálfsmatskvörðum til samanburðar. Niðurstöður leitandi þáttagreiningar styðja þriggja þátta aðgreiningu Lovibond og Lovibond (1995b). Áreiðanleiki undirkvarða er fullnægjandi og mat á samleitni- og aðgreiningarréttmæti kvarða styður þriggja þátta líkan DASS-kvarðans. Skipting skora í fimm flokka eftir alvarleika var skoðuð og sýndi hún álíka niðurstöður og upphafleg viðmið frá Lovibond og Lovibond (1995b).
Rannsókn 2 byggði á gögnum frá geðdeild LSH og samanstóð af tveimur úrtökum sjúklinga (hópur 1: þátttakendur í hugrænni atferlismeðferð við lágu sjálfsmati n = 289, hópur 2: þátttakendur í hópmeðferð vegna áfengis-og vímuefnavanda n = 113) og stóru úrtaki barnshafandi kvenna sem gengist höfðu undir skimun fyrir þunglyndi og kvíða við reglulegt eftirlit á heilsugæslustöðvum (hópur 3; n = 1810). Niðurstöður þáttagreiningar á gögnum sjúklinga sýndi skýra þriggja þátta byggingu listans en meiri samsláttur var á milli þátta í niðurstöðum fyrir barnshafandi konur. Áreiðanleiki þátta var fullnægjandi í báðum úrtökum. Greiningarhæfni var skoðuð með ROC-greiningu og sýndi góða matshæfni DASS-kvarðans. Greiningarviðmið voru skoðuð út frá ROC-kúrfum og töluverður munur kom fram á milli hópa. Sambærilegar prófanir voru gerðar á styttri útgáfu kvarðans (DASS21) og voru niðurstöður áþekkar og fyrir lengri útgáfuna.
Almennt séð voru niðurstöður próffræðilegra eiginleika íslenskrar útgáfu DASS-kvarðans í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna. Frekari þörf er á rannsóknum til skoðunar á greiningarviðmiðum DASS-kvarðans við skimun á geðröskunum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Björgvin Ingimarsson - DASS.pdf | 433,17 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |