is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5414

Titill: 
  • Staður Stíla. Tilraun í heimspeki mismunarins
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð er fengist við að rannsaka bókina Sporar. Stílar Nietzsches eftir Jacques Derrida. Ætlunin er að leiða í ljós þá formgerð sem þessi texti Derrida lýtur og/eða skapar
    – með það fyrir augum að opinbera sjálfan möguleikann á heimspeki mismunarins; hvert
    sé eðli hennar og takmörk.
    Ritgerðin skiptist í fjóra hluta. Í fyrsta hluta er umrædd bók Derrida sett í fræðilegt samhengi í þeim skilningi að þær heimspekilegu spurningar sem varða bókina eru tilteknar. Í öðrum hluta fæst ég við framleiðslu á ákveðinni tegund orðræðu sem er af sama meiði og orðræða Derrida í Sporum. Stílum Nietzsches; þ.e. framleiðsla á misleitni í
    texta, en misleitni í texta er það ástand á hlutunum þar sem mörk framleiðslu og neyslu á
    texta hafa verið rofin – í þeim skilningi að merking textans er ekki fyrirfram skilyrt af
    ætlun höfundar; merkingin er m.ö.o. ekki ein og óskipt heldur framleidd að nýju við
    sérhvern lestur á textanum. Í þriðja hluta fer fram greining á fyrirbærafræðilegum
    eigindum í orðræðu Derrida, orðræðu minni (eða þeirri orðræðu sem er orðræða misleitninnar almennt); þ.e. greining á þeirri verufræðilegu vídd textans (Sporar. Stílar Nietzsches) sem felst í sambandi vitundarinnar við textann, sambandi sem á sér aðeins og eingöngu stað við lestur á textanum (í þessu tiltekna samhengi: við lestur á Sporum. Stílum Nietzsches). Í fjórða hluta útlista ég að lokum þær rökfræðilegu afleiðingar sem
    áðurnefndar fyrirbærafræðilegar eigindir í orðræðu Derrida fela í sér – og þá fyrst og fremst þær rökfræðilegu afleiðingar sem snúa að tilvistarlegum skilyrðum mannsins eða því mögulega frelsi sem einstaklingurinn getur fundið og eignað sér í textanum.
    Þau meginsjónarmið sem eru sett fram í ritgerðinni eru eftirfarandi: 1) Að markmið Derrida með þessari bók sinni sé að brjótast út úr viðjum frumspekilegrar hugsunar – þ.e. að framleiða misleitni í texta sem tryggir að sérhver lesandi verði óskilyrtur af orðræðunni sem þar má finna; óskilyrtur í þeim skilningi að merking textans sé ekki ein og óskipt og í þeim skilningi sé hún ekki fyrirfram ákvörðuð af höfundi textans. Ætlun Derrida er því í raun að skapa texta sem er aðeins verufræðilegt skilyrði fyrir mögulegri merkingu og að sjálf merking textans sé þ.a.l. framleidd við lestur á textanum, eða þeim lestri sem er staður neyslu og framleiðslu í senn. 2) Að texti Derrida (Sporar. Stílar Nietzsches) feli í sér nægileg skilyrði fyrir framleiðslu á misleitni í texta og Derrida takist þar með að uppfylla markmið sitt. 3) Að ofangreind nægileg skilyrði fyrir misleitni í texta felist í þeirri ákveðnu birtingarmynd textans sem er Slóði, en Slóðinn er fyrirbærafræðileg birting textans í tíma og á sér því upphaf og endimörk í tengslum textans við sérhvern lesanda en þessi tengsl er aðeins að finna í lestri á textanum, lestri (sem er skilyrðislaust) í tíma.
    Lokaniðurstaðan er sú að Derrida takist gott betur en að uppfylla eigin markmið –
    en ég held því fram að rökfræðileg rannsókn á fyrirbærafræðilegum eigindum textans feli
    í sér þá andrá þar sem heimspeki mismunarins raungerist í sínu fullnaðarformi; þ.e. það
    andartak þegar heimspeki mismunarins hættir að vera ómögulegur möguleiki (þ.e. sá möguleiki sem er aðeins mögulegur að því tilskildu að hann öðlist ekki raungert form) og uppfyllir eigið inntak; inntak sem er frjáls vilji mannsins.

Samþykkt: 
  • 26.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5414


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
tilraun í heimspeki - pdf.pdf303,39 kBLokaðurHeildartextiPDF