Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5421
Persónuleikavandamál hafa verið skilgreind sem skortur á færni á sviðum sem eru talin tengjast persónuleika fólks. Verheul og félagar (2008) hönnuðu SIPP-118-mælitækið til að meta slíka færni á sviðum sjálfsstjórnar, sjálfkenndar, tengslamyndunar, ábyrgðar og félagslegrar samsvörunar. Mælitækið er einnig til í 60 atriða útgáfu. Í þessari rannsókn voru próffræðilegir eiginleikar styttri útgáfunnar á íslensku athugaðir, ásamt tengslum hans við kvíða, þunglyndi, bjargráð og lífsánægju. Kynjamunur á þessum breytum var kannaður og athugað var hvort SIPP-60-skor gætu spáð fyrir um hvort þátttakendur myndu mögulega uppfylla greiningarviðmið fyrir persónuleikaraskanir samkvæmt skimunarlista. Niðurstöður sýndu að þáttabygging styttri útgáfu SIPP er svipuð og upprunalegu útgáfunnar, og áreiðanleiki undirkvarða yfirleitt góður. Skor á SIPP-60 höfðu neikvæð tengsl við kvíða, þunglyndi og ógagnleg bjargráð en jákvæð tengsl við lífsánægju og gagnleg bjargráð. Munur var á SIPP-skorum þátttakenda eftir því hvort þeir voru fyrir ofan eða neðan viðmiðunarskor fyrir mögulega greiningu á persónuleikaröskunum. Tvíkosta aðfallsgreining sýndi að skor á kvíðakvarða HADS ásamt skorum á Sjálfsstjórnarkvarða, Tengslamyndunarkvarða og kvarða Félagslegrar samsvörunar á SIPP-60 spái fyrir um hvort þátttakendur uppfylli mögulega greiningarviðmið
fyrir persónuleikaraskanir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS ritgerðSM.pdf | 607.45 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |