Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5441
Þetta verkefni er fræðileg úttekt á rannsóknum sem gerðar hafa verið á sjónrænu mati á blæðingu. Áhersla er lögð á ljósmæður og aðra heilbrigðisstarfsmenn sem meta blæðingu eftir fæðingu en til frekari upplýsinga eru einnig skoðaðar rannsóknir sem taka fyrir mat á blæðingu á öðrum sviðum heilbrigðisvísinda.
Tilgangurinn er fyrst og fremst að varpa ljósi á hvort sjónrænt mat á blæðingu eftir fæðingu sé áreiðanlegt. Í öðru lagi lítur höfundur á þessa fræðilegu úttekt sem forvinnu að meistararannsókn en síðast en ekki síst að hér verði til grunnur að fræðslu um hvernig best sé að standa að sjónrænu mati á blæðingu eftir fæðingu Heimildir eru að mestu leyti fengnar af veraldarvefnum en við hugmyndavinnu voru einnig skoðaðar verklagsreglur svo og kennslubækur sem liggja til grundvallar í ljósmóðurfræði.
Rannsóknir sýna að sjónrænt mat á blæðingu er oftar en ekki ónákvæmt og þar af leiðandi óáreiðanlegt. Óáreiðanlegast þykir mat á miklum blæðingum sem frekar eru vanmetnar á meðan litlar blæðingar eru ofmetnar. Ekki er marktækur munur á mati milli starfsstétta, sérhæfingar, starfssviðs eða starfsreynslu. Eins er ekki munur á mati heilbrigðisstarfsmanna og almennings hvað áreiðanleika varðar. Undirlag hefur áhrif á mat fólks á magni blæðingar og sýnt þykir að umgjörð gerir mat fólks áreiðanlegra. Fræðsla eykur áreiðanleika á mati blæðingar en þó aðeins til skamms tíma.
Þessa þætti ættu ljósmæður og annað heilbrigðisstarfsfólk að hafa í huga þegar það leggur sjónrænt mat á blæðingu. Niðurstöður þessarar fræðilegu úttektar er hægt að hafa að leiðarljósi við gerð fræðsluefnis og jafnvel verklagsreglna um sjónrænt mat á blæðingu eftir fæðingu. Fleiri rannsókna er þó þörf.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sjónrænt mat á blæðingu eftir fæðingu.pdf | 364.07 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |