is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Þverfræðilegt nám > Umhverfis- og auðlindafræði >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5467

Titill: 
  • Greiðsluvilji vegna sjónrænna áhrifa háspennulína
Titill: 
  • Willingness to pay for visual impact of power lines
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Umræða um sjónræn áhrif háspennulína hefur verið áberandi á Íslandi undanfarin misseri. Jafnframt hefur mátt greina aukinn þrýsting á að leggja jarðstrengi. Margs er að gæta ef breyta á um áherslur í þessum efnum. Tæknilegir eiginleikar þessara tveggja flutningsmáta eru ólíkir og kostnaður við lagningu jarðstrengs er hærri.
    Reikna má út kostnaðinn sem fylgir því að leggja jarðstreng. Hins vegar er erfiðara að meta kostnað sem fellur á samfélagið, meðal annars vegna sjónrænna áhrifa. Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta jaðarkostnað samfélagsins vegna sjónrænna áhrifa háspennulína og mastra.
    Rannsóknin var gerð með aðferðafræði skilyrts verðmætamats. Í rannsókninni var greiðsluvilji almennings gagnvart sjónrænum áhrifum Búrfellslínu 2 á ákveðnum kafla á Suðurlandi kannaður. Rannsóknarsvæðinu var skipt niður í þrjú minni svæði, svæði A sem er uppi á Hellisheiði, svæði B við Hveragerði og svæði C sem liggur við Gljúfurárholt. Teknar voru myndir af stuttum kafla og línurnar á myndunum og háspennumöstur máð í burtu með myndvinnslu. Þátttakendur voru beðnir um að svara því hvort þeir væru reiðubúnir að greiða hærra rafmagnsverð fyrir að sjá ekki lengur þessar línur og möstur.
    Úrtak var valið af handahófi úr þjóðskrá, 240 manns, sem skiptist jafnt milli íbúa í Reykjavík, á Selfossi og í Hveragerði. Viðtöl fóru fram frá apríl til júlí 2009. Þátttökuhlutfall var 52,5%.
    Meðalgreiðsluvilji úrtaksins fyrir rannsóknarsvæðið allt er 8.100 kr. á ári. Hvergerðingar eru tilbúnir til að greiða mest, 11.500 kr. á ári. Greiðsluvilji fyrir svæði B, við Hveragerði er hæst, en lægst fyrir Hellisheiðina.
    Þátttaka í könnuninni þykir nokkuð góð. Hlutfall mótmælasvara er lágt. Línuleg aðhvarfsgreining bendir ekki til þess að marktækt samband sé milli tekna og greiðsluvilja miðað við 95% marktækni. Hins vegar er marktækt samband milli atvinnuþátttöku og greiðsluvilja sem styrkir niðurstöður rannsóknarinnar. Búseta hefur einnig marktæk áhrif á greiðsluvilja.
    Niðurstöðurnar benda til að sjónræn áhrif háspennulína skipti almenning nokkru máli. Þar sem sjónræn áhrif voru einangruð í þessari rannsókn er ekki hægt að fullyrða að jarðstrengir séu sú lausn sem þátttakendur kjósa í staðinn. Rannsóknina má telja mikilvægt skref í átt að því að meta jaðarkostnað almennings gagnvart sjónrænum áhrifum háspennulína og opnar á mikla möguleika til frekari rannsókna.

Styrktaraðili: 
  • Landsnet,
    Orkuveita Reykjavíkur
Samþykkt: 
  • 31.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5467


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Anna S. Ragnarsdóttir MS ritgerð.pdf2.39 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna