Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5515
Ritgerð þessi byggir á bókinni Literary Theory: The Basics eftir Hans Bertens sem kennd er í grunnnámi í íslensku og almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Í bókinni fjallar Bertens um pólitískar greiningar á bókmenntum sem mjög áttu upp á pallborðið í bókmenntafræðum á 8. og 9. áratugnum. Tilgreinir hann þrjár meginstefnur, marxisma,
femínisma og kenningar er snúa að kynþáttum. Einnig tilgreinir hann aðrar kenningar, eins og þær sem snúa að kynferðis fólks, er sóttu á í lok aldarinnar. Í ritgerðinni er beitt þeim aðferðum sem Bertens lýsir við greiningu á hugarheimi pönksins. Pönkið í Bretlandi, Bandaríkjunum og ekki síst á Íslandi er skoðað út frá hverri kenningunni fyrir sig.Pönkararnir skiptust í tvennt hvað stjórnmálaskoðanir varðar, ekki síst í Bretlandi og á Íslandi.
Sumir vildu heyja gamaldags stéttabaráttu, meðan aðrir töldu sig anarkista og hafna yfir slík átök.
Í öllum þrem löndunum leiddi pönkið til þess að konur endurskilgreindu stöðu sína og sóttu æ meir inn á hefðbundin athafnasvæði karla. Lengst gekk þetta líklega með „riot grrl“ hreyfingunni í Bandaríkjunum á 10. áratugnum, sem var beint afsprengi pönksins. Sumar konur kenndu sig meðvitað við femínisma, en aðrar snéru hlutunum á haus með hegðun sinni þó þær teldu sig ópólitískar. Einnig er stiklað á stóru í rokksögunni fram að pönkinu og sýnt fram á hvernig afstaða fólks til ekki bara kyns heldur kynferðis breyttist. Frá upphafi rokksins fóru karlmenn í æ meira
mæli að taka upp hefðbundin hegðunarmynstur kvenna, en með pönkinu fóru konur að leika
eftir körlunum. Pönkarar tóku ekki endilega afstöðu með samkynhneigðum, en á 10.
áratugnum fara lesbíur að verða áberandi í neðanjarðarhreyfingum rokksins.
Að lokum er rokksaga Íslands skoðuð út frá nýlendukenningum, en svo virðist vera að Ísland, sem jaðarsvæði, hafi að mörgu leyti gengið í gegnum sama þróunarferli og aðrar nýfrjálsar nýlendur hvað menninguna varðar. Þetta kemur ekki síst fram í dægurlagatónlistinni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Valur Snaer - heildaruppkast2.pdf | 860.22 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |