Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5520
Í þessari rannsókn var kannaður stöðugleiki glúkósa í mismunandi blóðsýnaglösum ásamt því að mat var lagt á hvort æskilegt væri að breyta vali á blóðsýnaglösum á Landspítalanum út frá vitneskju um óstöðugleika glúkósa fyrir mælingu.
Glúkósi lækkar í blóðsýnaglösum vegna glýkólýsu sem er einn helsti skekkjuvaldur í forgreiningarfasa glúkósamælinga. Klínískar rannsóknarstofur hafa notað ýmis verndunarefni í blóðsýnaglösum, til dæmis natríum flúoríð og iodoacetat, til að koma í veg fyrir glýkólýsu í blóðsýnaglösum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út alþjóðlegar leiðbeiningar um greiningu á sykursýki. Forsenda fyrir réttri sjúkdómsgreiningu á sykursýki er að mælingar á glúkósa í blóði séu stöðugar og nákvæmar.
Úrtak rannsóknarinnar samanstóð af 30 heilbrigðum einstaklingum og 20 einstaklingum með sykursýki sem eru í eftirliti á göngudeild sykursjúkra. Blóðsýni voru tekin í mismunandi blóðsýnaglös úr hverjum þátttakanda, sermisgel blóðsýnaglös, natríum flúoríð blóðsýnaglös og FcMix blóðsýnaglös. Blóðsýnaglösin voru geymd í stofuhita við 2, 4 og 24 klukkustundir áður en þau voru skilin niður og glúkósi mældur. Glúkósastyrkur úr mismunandi blóðsýnaglösum var borin saman við glúkósastyrk í viðmiðunarsýnum sem tekin voru í lithíum heparín blóðsýnaglös sem strax voru sett í ísvatn og skilin niður.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að stöðugleiki glúkósa er mismikill í mismunandi blóðsýnaglösum. Blóðsýnaglös sem innihalda FcMix virðast vera bestu blóðsýnaglösin til að minnka áhrif glýkólýsu á niðurstöður glúkósamælinga. Æskilegt væri að skoða breytingu á vali á blóðsýnaglösum á Landspítalanum og væri FcMix besti kosturinn þar sem glúkósi helst stöðugri í FcMix blóðsýnaglösunum samanborið við aðrar tegundir blóðsýnaglasa sem rannsakaðar voru.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Þóra Guðrún - Stöðugleiki glúkósa.pdf | 777.3 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |