Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/557
Samkvæmt grunnskólalögum frá árinu 1995 er hverjum grunnskóla landsins skylt að sjá til þess að nemendur fái kennslu í sögu. Sagan er nauðsynleg til að efla skilning okkar á því samfélagi sem við búum í ásamt þekkingu á þeim hugmyndum sem hafa átt þátt í að móta samfélag okkar á hverjum tíma.
Eitt af meginmarkmiðum sögukennslu samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er að nemendur verði læsir á umhverfi sitt, samfélag og menningu. Nauðsynlegt er að nemendur skilji hvernig sagan hefur mótandi áhrif á einstaklinginn og hvernig sú sögulega framvinda sem einstaklingurinn er staddur í hefur áhrif á skoðanir hans og væntingar til framtíðarinnar.
Það er hægt að fara ótal leiðir í sögukennslu í grunnskólum og er ýmislegt í umhverfi okkar sem gagnast getur í slíkri kennslu, svo sem byggingar, landslag, minnisvarðar og söfn og sýningar af ýmsu tagi. Í slíkri kennslu getur myndrænt nám komið að góðu gagni ásamt fjölbreyttri heimildarvinnu. Mikilvægt er að kennarar leiti tækifæra til að tengja fortíð við nútíð og framtíð og leitast við að tryggja að nemendur upplifi söguna sem eitthvað mikilvægt og um leið að auka skilning þeirra á mikilvægi sögunnar í lífi og starfi hvers einstaklings.
Árið 1995 var gerð evrópsk rannsókn á söguvitund unglinga. Þar var meðal annars athugað hvaða þýðingu sagan hefur fyrir unglinga, hvernig sögukennslu er háttað í grunnskólum og hvaða framsetningu sögunnar unglingar hafa gaman af og treysta. Í nóvember árið 2005 var hluti þessarar rannsóknar endurtekinn til að sjá hvort einhverjar breytingar hafi átt sér stað á framangreindum þáttum á síðustu 10 árum. Rannsókn þessi gefur vísbendingar um að smávægilegar breytingar hafi átt sér stað á nefndu tímabili en jafnframt vekja niðurstöður hennar upp spurningar um hugtakið söguvitund og að hvaða marki sögukennarar nota það til grundvallar sögukennslunni í þeim tilgangi að efla söguvitund meðal nemenda.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
hvada.pdf | 1.34 MB | Opinn | Hvaða leiðir er hægt að fara í sögukennslu og hvernig er saga kennd í grunnskólum? - heild | Skoða/Opna |