is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5626

Titill: 
 • Leiðsögn í verklegu námi hjúkrunarfræðinema : viðhorf hjúkrunarfræðinga
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Verklegt nám á sjúkradeildum er mikilvægur hluti af námi í hjúkrunarfræði og gegna starfandi hjúkrunarfræðingar á viðkomandi deildum veigamiklu hlutverki í þjálfun nemenda. Þeir fá til þess lítinn undirbúning eða þjálfun sem getur haft áhrif á gæði verklega námsins. Leiðbeinandahlutverkið í hjúkrun hefur ekki verið rannsakað á Íslandi en það er mikilvægt að skoða það í þeim tilgangi að styðja við starfsþróun hjúkrunarfræðinga og tryggja nemendum sem besta leiðsögn.
  Markmið þessarar rannsóknar er að kanna viðhorf og reynslu hjúkrunarfræðinga af leiðbeinandahlutverkinu og hvaða stuðningur, undirbúningur og umbun væri nauðsynlegur að þeirra mati svo sinna mætti leiðsögninni á fullnægjandi hátt.
  Rannsóknin er lýsandi þversniðskönnun. Spurningalisti var hannaður af rannsakanda, unninn upp úr viðtölum við hjúkrunarfræðinga og þátttökuathugunum á nemendum í verklegu námi, svo og fræðigreinum um efnið, og samanstendur hann af 22 lokuðum spurningum. Listinn var sendur rafrænt á alla starfandi hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu- og legudeildum skurðlækninga- og lyflækningasviðs Landspítala í nóvember 2009. Úrtakið var það sama og þýðið, svörun var 52%.
  Niðurstöður sýna að hjúkrunarfræðingar eru almennt jákvæðir gagnvart því að taka þátt í menntun hjúkrunarfræðinema því það sé ábyrgð sem feli í sér faglega hvatningu og hvetji þá til að ígrunda eigin störf. Hins vegar er það tímafrekt og eykur vinnuálag. Langflestir töldu þörf á betri undirbúningi fyrir leiðbeinandahlutverkið og þá helst með kennslu í kennslufræði og samskiptahæfni. Þeir sem sótt höfðu slík námskeið töldu sig standa betur að vígi en hinir. Almennt voru eldri og reynslumeiri hjúkrunarfræðingar betur undirbúnir og fannst síður krefjandi að vera með nema með sér á vaktinni. Jákvæð fylgni var á milli starfsánægju og jákvæðni í garð nemenda. Stuðningur til hjúkrunarfræðinga kom í flestum tilfellum frá samstarfsfólki og deildarstjórum.
  Af niðurstöðum rannsóknarinnar má álykta að hjúkrunarfræðingar á LSH þurfi frekari stuðning og undirbúning til að sinna leiðsögn nema í verklegu námi.

Samþykkt: 
 • 16.6.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/5626


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA ritgerð endanleg útgáfa.pdf3.11 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna