Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5637
Hjúkrunarfræðingur á lyflækningasviði er að annast við fólk með margskonar sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma og krabbamein. Rannsóknir sýna að við alvarleg veikindi upplifa skjólstæðingar mikla streitu og þurfa andlegan stuðning. Það reynir á hjúkrunarfræðingana sem vinna undir álagi og tímaskorti.
Tilgangur þessarar rannsóknarinnar var að komast að því hvað hefði áhrif á líðan hjúkrunarfræðinga í starfi á lyflækningasviði. Rannsóknarspurningin var: Hvaða þættir hafa áhrif á líðan hjúkrunarfræðinga í starfi á lyflækningasviði í tengslum við andlega umönnun?
Tekin voru ellefu opin óstöðluð viðtöl við sex hjúkrunarfræðinga á fjórum deildum, á þremur sjúkrahúsum á Íslandi. Þátttakendur voru valdir með tilgangsúrtaki. Þeir höfðu allir unnið á lyflækningasviði í að minnsta kosti tvö ár. Meðalstarfsaldur þeirra var 15 ár. Vancouver skólinn í fyrirbærafræði var valinn sem aðferðafræðilegur grunnur rannsóknarinnar vegna þess að hann hefur reynst vel við rannsóknir á reynslu fólks.
Helstu niðurstöður eru að grunnmenntun bjó flesta hjúkrunarfræðingana ekki undir andlega umönnun. Þeir lærðu meira af námskeiðum og persónulegri- og faglegri reynslu en í hjúkrunarnámi. Þeir höfðu góðan stuðning og skilning á vinnustað á mikilvægi andlegrar umönnunar. Álag gat verið mikið. Margir kvörtuðu undan tímaleysi. Samskipti við lækna voru almennt góð en stundum voru þeir ekki sammála um meðferð. Öllum þótti starfið krefjandi, gefandi og skemmtilegt. Það sem flestum fannst erfiðast var að sinna reiðum aðstandendum og ungu fólki með lífshótandi sjúkdóma. Aðstaðan til að sinna mikið veikum og deyjandi skjólstæðingum var misgóð.
Rannsóknin gefur innsýn í reynslu hjúkrunarfræðinga á lyflækningasviði. Rannsóknin bendir til að bæta þurfi kennsluaðferðir og efla handleiðslu og ígrundun í hjúkrunarnámi. Hjúkrunarfræðingar sem vinna við andlega umönnun þurfa að þekkja sjálfa sig vel. Reynsla og þekking þeirra er dýrmæt og miðlast hjúkrunarfræðinga á milli. Tíma er auðveldara að stjórna þegar tveir hjúkrunarfræðingar vinna saman fremur en hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
rannsóknloa.pdf | 2,57 MB | Opinn | ,,Maður þarf oft að stíga varlega til jarðar: Áhrifaþættir á líðan hjúkrunarfræðinga á lyflækningasviði í tengslum við andlega umönnun - heild | Skoða/Opna |