Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5662
Tilgangur ritgerðarinnar var að veita heildstætt yfirlit yfir ógildingarákvæði III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, ásamt því að kanna bakgrunn og þróun laganna. Ógildingarástæðum III. kafla samningalaga var skipt í tvo flokka. Undir ógildingarástæður á grundvelli tilurðar samnings féllu ákvæðin: Meiriháttar nauðung (28. gr.), minniháttar nauðung (29. gr.), svik (30. gr.), misneyting (31. gr.), mistök (32. gr.) og málamyndagerningur (34. gr.). Undir ógildingarsjónarmið á grundvelli sanngirni féllu: Óheiðarleiki (33. gr.), ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju (36. gr.) og neytendaákvæði (36. gr. a-d.). Þegar dómaframkvæmd á ákvæðum III. kafla samningalaga var metin kom í ljós að víðtækust var ógildingarheimild 36. gr. laganna og virðist henni frekar vera beitt en hinum ógildingarákvæðunum. Litlar breytingar hafa orðið á meginefni samningalaganna frá setningu þeirra. Helsta breytingin sem snýr að ógildingu samninga var á 36. gr. með lögum nr. 11/1986, þar sem heimilað var að líta til atvika sem koma til eftir samningsgerðina. Löggjöf á sviði samningaréttar er ekki ný af nálinni, en talið er að fyrstu heimildir á sviði verslunar- og viðskipta séu frá 3.000 f.Kr. Rómverjar höfðu mikil áhrif á þróun samningaréttarins, ekki einungis varðandi skuldbindingargildi samninga heldur jafnframt ógildingu þeirra. Þessi sjónarmið komu snemma fram í íslenskum rétti en bæði Grágás og Jónsbók höfðu að geyma ákvæði sem gerðu ráð fyrir því að loforð sem almennt teldust gild, gætu að vissum skilyrðum uppfylltum talist ógild. Samningalögin eru helsta réttarheimild um almennar reglur samningaréttarins og eiga þau rætur að rekja til norrænnar samvinnu. Á komandi árum má þó leiða að því líkum að stefnumörkun löggjafar á sviði fjármunaréttar muni fara fram innan evrópskrar samvinnu og norræn samvinna muni í ríkara mæli snúa að innleiðingu Evrópureglna í landslög.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ógildingarástæður samningalaga - Steinþór Þorsteinsson.pdf | 1.39 MB | Opinn | Ógildingarástæður samningalaga - heild | Skoða/Opna |